05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

1. mál, fjárlög 1933

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. áheyrendur ! Það er nú komið að hinni síðustu umferð, sem ég get tekið þátt í, í þessum umr., og það er ekki nema ein umferð eftir, svo að andstæðingarnir, langflestir, eiga ekki kost á að svara aftur. Ég mun þó nota tíma minn til að tína upp nokkur einstök atriði og víkja fáeinum orðum að þeim hv. þm., sem hafa yrt á mig, og gera nokkrar aths. við það, sem þessir hv. þm. hafa sagt. Þær ræður eru nokkurt sýnishorn af bardagaaðferð og vopnaburði þessara hv. þm. Ég mun þó telja mér skylt að haga orðum mínum hóglega, þar sem þeir geta ekki tekið aftur til máls og svarað fyrir sig. Ég get ekki minnzt á margt, þar sem tilhögunin á þessum umræðum er ekki eins og ég álít að hún ætti að vera, þar sem andstæðingunum er gefinn helmingi lengri tími en stj.

Um ræðu hv. þm. G.-K. vil ég segja tvennt. Annarsvegar það, að hann talaði um glamur í minni ræðu, þar sem ég talaði um verkfall og samúðarverkfall. Það getur vel verið, að það hafi verið glamur; ég skal engan dóm á það leggja, en legg það glaður undir dóm áheyrendanna. En hv. þm. G.-K. fær líka sinn dóm, og ég legg það glaður undir dóm áheyrendanna, hvort það var minna glamur í hans ræðu en minni, og ég hygg, að þeir verði ekki færri, sem álíta, að það hafi verið lítið um annað en glamur í hans ræðu.

Það var eitt eftirtektarvert í ræðu hv. þm. G.-K.; það voru orðin, sem hann sagði síðast. Hann sagði: „Jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn munu grípa til sinna ráða“. Ég vil biðja landslýðinn að athuga vel þessi ummæli. Eru þau svar við beiðni hv. 3. þm. Reykv., formanns Verkamálaráðs Íslands, um samúðarverkfall?

Hv. 3. þm. Reykv. skal fá þann vitnisburð hjá mér, að hann er langhreinskilnastur allra hv. þm. í sínum ræðum. í sinni fyrstu ræðu kom hann með verkfallshótun og beiðni um samúðarverkfall. Og þegar hann svaraði, stóð hann við það orði til orðs, sem hann sagði í sinni fyrstu ræðu; hann tók ekkert aftur af því síðar, heldur bætti við það í fullri hreinskilni. Hv. 3. þm. Reykv. gekk lengra; hann gerði aðra játningu. Hann sagði skýlaust: „Alþýðuflokkurinn ber enga ábyrgð á stjórnarfarinu og afgreiðslu á löggjöf landsins. Það þýðir ekki að tala við okkur um ábyrgðartilfinningu“. Ég vona að allir taki eftir þessu. Þetta er virðingarverð hreinskilni. Fulltrúar verkamannanna á Alþ. telja sig ekki hafa neina ábyrgð á því, sem gerist á Alþ. Það verður langur hali á heim ályktunum, sem draga má til af þessum orðum hv. þm. Hann verður oft minntur á þau. Ég endurtek það, að það var meiri hreinskilni í ræðu hv. 3. þm. Reykv. en nokkurs annars þm., og að hann er miklu hreinskilnari en flokksbróðir hans, hv. þm. Seyðf., sem vildi kasta ábyrgðinni að meira eða minna leyti af sér yfir á okkur.

Hv. 4. þm. Reykv. var ekki eins hreinskilinn og hv. 3. þm. Reykv. og sýndi miklu minni heilindi í sinni ræðu. Hann neitaði því, eins og hv. 2. þm. Skagf., að sjálfstæðismenn hafi viljað og vilji enn leggja niður kjördæmin. Þetta segir hann, þótt það sé vitað, að þeir voru reiðubúnir til þess í fyrra, og hott því sé yfirlýst nú í áliti meiri hlutans í stjskrn. Þetta segir hann, þótt það viti allur landslýður, að fulltrúar sjálfstæðismanna í kjördæman. Hafa lýst sig reiðubúna nú að ganga inn á varatill. hv. 2. landsk.

Hv. 4. þm. Reykv. vill neita því, að Framsóknarflokkurinn hafi unnið kosningasigur 1931, og hv. 2. þm. Skagf. neitar þessu líka. Þó veit það allur landslýður, að Framsóknarflokkurinn bætti við sig fleiri atkv. en nokkur annar flokkur, þegar það er borið saman við atkvæðatölur flokkanna við undanfarandi kosningar, bæði næstu kosningar á undan þeim síðustu, og þó sérstaklega kosningarnar þar á undan. Ennfremur dró hv. 4. þm. Reykv. dár að mér fyrir það, að ég hefði sagt, að ég legði óhræddur þetta mál undir dóm þjóðarinnar. Ég vil minna hv. þm. á, að við framsóknarmenn getum þar úr flokki talað. Ef við tökum þær 4 almennar kosningar, sem fram hafa farið síðan Framsóknarflokkurinn hóf starf sitt, þá sest það, að við hverjar nýjar kosningar hefir hann bætt við sig atkv. Hann hefir vaxið jafnt og þétt, meira en nokkur annar flokkur, en mest við kosningarnar í sumar. En flokkur hv. 4. þm. Reykv., sem gengið hefir til þessara 4 fyrirfarandi kosninga undir 4 nöfnum. hefir sömu sögu að segja, því hver för hefir verið fyrir honum samfelld breyting í sömu stefnu, þegar hann hefir skotið málum til þjóðarinnar, því að kosningafylgi hans hefir alltaf minnkað í sama hlutfalli og á sama stigi og fylgi Framsóknarflokksins hefir vaxið.

Hv. þm. Seyðf. sýndi ekki minni óheilindi í sinni ræðu, og var ekki eftirbátur hv. 2. þm. Skagf. í málaflutningnum, þótt hann hafi ekki málaflutningsstörf að atvinnu. Hann sagði, að stj. hefði ekkert gert í kjöttollsmálinu. Því hefir nú hæstv. fjmrh. svarað. Hann sagði líka, að stj. hefði ekkert gert um viðskipti út á við. Hæstv. fjmrh. hefir líka svarað því. Viðvíkjandi viðskiptunum við England vil ég þó geta þess, að stj. hefir sent þangað Svein Björnsson sendiherra. Viðvíkjandi viðskiptunum við Spán vil ég segja það, að um þau fer nú fram sérstök athugun. Viðvíkjandi viðskiptunum sið Þýzkaland, þá er það kunnugt, að stj. sendi þangað hv. þm. Vestm., Jóhann Jósefsson, og að sú för hefir þegar borið árangur í þá átt, að liðka til um viðskipti við þjóðverja. Og viðvíkjandi viðskiptunum við Noreg, þá sendi stj. þangað þá Bjarna Ásgeirsson og Svein Björnsson. Og svo segir hv. þm. Seyðf., að stj. hafi ekkert gert í þessum málum.

Hv. þm. Seyðf. ásakaði okkur fyrir, framsóknarmenn, að við skulum ekki leggja fram nál. í kjördæmamálinu. En liggur það fyrir frá hv. 2. landsk.? Nei, hann er heldur ekki búinn að skila nál. Hann ásakar okkur fyrir, að landsreikningurinn skuli ekki vera kominn. En það upplýstist af hæstv. fjmrh., að honum var boðið að sjá hann, en hann hefir ekki nennt að ganga upp í prentsmiðju eftir honum.

Hv. þm. Seyðf. spyr: Hvað ætlar stj. sér að gera í því að leggja vegi? Hvað ætlar hún að gera í því að byggja brýr? Hvað ætlar hún að gera í því að leggja síma? Hvað ætlar hún að gera í því að sjá um atvinnubætur? Þetta virðist ofur einfalt, að spyrja um, hvað stj. ætli að gera í þessum eða hinum framkvæmdum, jafnframt því, sem hann yfirlýsir með hv. 3. þm. Reykv., að hann ætli enga peninga að láta stj. fá til neins. Jafnframt því, sem hann neitar að framlengja gamla skatta og að leggja á nýja skatta, heimtar hann allt til allra þarfa út um allt land.

Loks sagði hv. þm. Seyðf.: „Það sat ekki 5 hæstv. forsrh. að tala um verkfall. Stj. hefir sjálf gert verkfall“. Og það var mikill fjálgleikur og hreinleikur í tóninum. Hann sagði, að hér hefði verið samþ. till. í fyrra um að gera ráðstafanir til að lækka dýrtíðina, og að stj. hefði ekkert sinnt því máli. Og þó viðurkenndi hann, að hún hefði látið gera merkilega skýrslu um verzlunarkostnaðinn í Reykjavík, og auðvitað verður tekið tillit til hennar við afgreiðslu fjárl. Og svo segir hann að stj. hafi gert verkfall í sambandi við þessa till. Hann skakar hér auðsjáanlega í því skjólinu, að þm. séu svo minnislausir, að þeir muni ekki, hvað gerðist, þegar þessi till. var lögð fram hér í fyrra. En ég hefi hér þingtíðindin frá í fyrra, og þau sýna afstöðu hv. jafnaðarmanna til till. Hv. 3. þm. Reykv. talaði um till. fyrir hönd flokks síns. Hann sagði: „Við jafnaðarmenn álitum þessa þáltill. þarflausa“. Svo stendur þessi sami hv. 3. þm. Reykv. upp og hellir sér yfir stj. fyrir að hafa ekki framkvæmt till. En allir hv. þm. jafnaðarmanna neituðu að greiða atkv. um till. þeir gerðu verkfall. Svo ásakar hv. þm. Seyðf. okkur fyrir það, sem við gerðum í sambandi við till. Þetta kastar nú ljósi yfir heilindin í þessu máli.

En mestu óheilindin hjá hv. stjórnarandstæðingum eru þó í sambandi við umframgreiðslurnar. Ég gat um í dag fjölda marga liði, um milljónir, tugi milljóna, sem allir höfðu staðið í fjárl. En til viðbótar því, sem ég nefndi í dag, hefi ég nú lista fyrir mér um umframgreiðslur, fyrir utan allar milljónirnar, sem allir þm. samþykktu, og fyrir utan skipanir þingsins, og auk hinna sérstöku laga. Þetta eru aðeins nokkrir liðir, sem ég nú vil lesa:

1. Vextir og afborganir kr. 1055000.00

2. Alþingi ............. – 143000.00

3. Landsspítali .......... – 851000.00

4. 13. gr. Vegir, brýr,

sími (framfaraverk) - - 3388000.00

5. Jarðræktarlögin ..... – 522000.00

6. Berklastyrkur ...... – 658000.00

7. Endurgreiddir tollar. – 229000.00

8. Skyldugreiðslur skv.

23. gr., sem ekki eru

taldar í jöfnuði fjárl. – 1247000.00

9. Alþingishátíðin ...... – 924000.00

10. þingsályktanir ...... – 88000.00

Samtals kr. 9105000.00

Þetta eru allt umframgreiðslur og skyldugreiðslur, sem eru utan við og fram yfir jöfnuð fjárl., fyrir utan allt það, sem greitt er samkvæmt sérstökum lögum; þetta eru tölur, sem nema yfir 9 millj. kr. Ég nefni þetta sérstaklega til viðbótar því, sem ég hefi áður sagt um samábyrgð flokkanna.

Út frá blekkingum hv. andstæðinga um þessar umframgreiðslur vil ég allra síðast segja þetta um landsreikninginn 1930, að það, sem mest er að marka, það, sem gefur bezta myndina af gjöldum ríkissjóðsins, er rekstrarreikningurinn fyrir 1930, sem ég held nú á í höndunum og færður er eins og lögin um ríkisbókhald og endurskoðun skipa fyrir um. Samkv. honum eru gjöldin 16716551 kr., og þar af er tekjuafgangur 464903 kr. Þetta minni ég á til viðbótar því, sem ég hefi áður sagt.

Ég get ekki sagt fleira nú. Hæstv. forseti rekur á eftir mér. Tími minn er liðinn. Ég vil því þakka öllum áheyrendum og árna þeim allra heilla.

Góðar nætur!