11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3238)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Halldór Steinsson:

Það kann að vera að nokkru leyti rétt hjá hv. 1. þm. Reykv., að ef n. á ekki að hugsa um annað en það, hvernig vinna megi úr íslenzkum hráefnum, þá eigi umræddir aðilar nokkurn rétt á að tilnefna menn í hana. En eins og hv. þm. er kunnugt, er það ýmislegt fleira, sem n. er ætlað að vinna að.

Ég er sammála hv. 2. landsk. um það, að svona n. geta yfirleitt lítið starfað sjálfar að þeim málum, sem þeim er ætlað að fjalla um. Nm. hafa venjulega enga fagþekkingu og verða því að leita út fyrir sinn hóp til að fá aðstoð sérfróðra manna. Það er því mikið rétt, sem hv. þm. sagði, að valið í þær n., sem skipaðar hafa verið undanfarin ár, hefir verið að mestu leyti út í bláinn.

Hv. 2. landsk. heldur því fram, að nokkurt gagn hafi orðið að mþn., sem starfað hafa. Skárra væri það líka, ef allar þær mþn., sem skipaðar hafa verið á seinni árum, hefðu alls ekkert unnið til gagns. En það liggur sannarlega ekki eins mikið eftir þær og búast hefði mátt við, eftir þeim geipilega kostnaði, sem af þeim hefir leitt. Hv. þm. talaði um mþn. í slysatryggingamálum. Ég kannast og við, að nokkuð liggur eftir hana. En það má benda á ýmsar aðrar n., sem virðast hafa haft lítinn árangur. Ég get bent á póstmálanefndina, — hvernig voru till. hennar? Eða landbúnaðarnefndin og fiskiræktarnefndin. Svona mætti lengi telja. Hvað hafa allar þessar n. kostað og hver er árangurinn af starfi þeirra?