15.04.1932
Efri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3253)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Baldvinsson:

Ég veit ekki betur en að allir þeir, sem sæti taka í mþn., séu að vinna fyrir aðra. Þeir eru að vinna fyrir sína stétt, en að öðru leyti vinna þeir ekki fyrir sjálfa sig. Fyrir slík störf er ávallt borgað. Ég get því ekki séð, hvers iðnaðurinn á að gjalda, ef þeir, sem sæti taka í n. til að athuga hans mál, mega ekki taka þóknun, eins og tíðkast í öllum öðrum mþn. Ég vissi nú ekki til, að hv. 1. þm. Reykv. væri fjársparari en aðrir menn. Og sízt er skiljanlegt, að hann skuli engrar þóknunar unna þessari n., sem þó á eftir hans skilningi að vinna verk, sem þarf mikillar rannsóknar við og kosta mun of fjár. Hann vill sem sé, að n. rannsaki, á hvern hátt er hægt að vinna úr framleiðsluvöru landsmanna. Til þess þarf rannsóknir vísindamanna. Ég held, að slík n. sem þessi gæti ekki gert meira en að benda á þá möguleika, sem hún kemur auga á um vinnslu afurðanna. Og þá möguleika yrði svo að taka til gagngerðrar og vísindalegrar athugunar áður en til framkvæmdar kæmi. Eftir því, sem stendur í þ-lið till., þá er n. ætlað að athuga möguleika um aukna innlenda iðju. Þetta getur n. gert, en meiri árangurs má varla af henni vænta, að öðru en því, að hún getur athugað það, sem felst í a-lið till. Hv. l. þm. Reykv. gerir aðrar og meiri kröfur til n., sem mundu leiða af sér afarmikinn kostnað. Er það því enn óskiljanlegra, að hann skuli geta búizt við því, að n. vinni þetta án endurgjalds.

Það er að vísu ekki mikið, sem við ætlumst til, að n. fái fyrir störf sín. Aðeins 2000 kr. alls, bæði í þóknun til hvers einstaks nm. og til sameiginlegs kostnaðar. Það er því auðséð, að enginn þm. ætlast til, að n. afkasti neitt sérlega umfangsmiklum eða kostnaðarsömum störfum. Hv. 1. þm. Reykv. sagði að vísu, að þau félög eða sambönd, sem tilnefndu mennina, gætu borgað þeim. En mér skilst, að ef n. verður skipuð, þá sé það gert með hag alls almennings fyrir augum, en ekki vissra félaga eða sambanda. Það er frekar fyrirkomulagsatriði, að þeir aðilar, sem upp á er stungið í þáltill., skuli tilnefna mennina, heldur en að ætlazt sé til, að hún vinni eingöngu fyrir þá. Og að játa þá greiða þóknun til n. hefir víst engum dottið í hug.

Ég get því ekki séð, að hv. 1. þm. Reykv. hafi mikið til síns máls í því, sem hann segir um skipun þessarar n. Og ég sé ekki, að hægt sé að taka mann, sem ef til vill væri æskilegur til þessa starfa, og láta hann vinna kauplaust. Í þetta þyrfti að leggja mikla vinnu og erfiði og verja svo miklum tíma til þess, ef skila á nokkrum árangri, að ekki er hægt að ætlast til, að fátækir menn, er hafa fyrir heimili að sjá, geti tekið slíkt að sér án þess að fá fyrir það sanngjarna þóknun.