05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, fjárlög 1933

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það líður nú senn að miðnætti, enda er nú að byrja síðasta umferðin í umræðunum á þessum eldhúsdegi, og ég tala síðastur af hálfu míns flokks. Vil ég þá víkja ofurlítið að því, sem hefir verið nefnt síðan ég talaði seinast.

Hæstv. fjmrh. sneri út úr því, sem ég sagði, í svari sínu, og var þess að vænta, því að ef hann hefði ekki gert það, hygg ég, að við hefðum verið sammála. Hann sagði, að ég hefði litið svo á, að stj. gæti komið í veg fyrir kreppu. Ég sagði aldrei neitt slíkt. Ég tók það skýrt fram, að kreppan væri eins og hvert annað sameiginlegt böl heimsins. Mér dettur ekki í hug, að það sé frekar hægt fyrir stj. íslenzku að koma í veg fyrir heimskreppu en t. d. bændur að koma í veg fyrir, að það komi harður vetur. En það, sem ég hefi sagt, er það, að það hefði verið hægt fyrir ríkisstj. að búa í haginn fyrir okkur, svo að kreppan hefði ekki skollið eins þungt á okkur. En hæstv. ráðh. reyndi náttúrlega að verja stj., og hann sagði, að ef þeir væri amlóðar, — sem ég sagði nú ekki —, þá mætti segja það sama um alla stjórnendur um alla veröldina. Þetta er nú náttúrlega ónakvæmni, að ég ekki segi meira. Ég er viss um það, að kreppan sverfur víða ekki eins fast að og hér. En auk þess þekki ég enga ríkisstj. í heiminum, sem hefir haft aðra eins aðstöðu til þess að búast við kreppunni og íslenzka stj. Ég býst við, að það hafi hvergi hagað svo til, að það hafi verið mokað eins geipilega miklum tekjum umfram áætlanir inn í ríkissjóðinn eins og her. Það mætti sjálfsagt líkja því, sem þar hefir átt sér stað, við aðstöðu Reykjavíkur og annara bæja, sem ekki hafa haft neinar tekjur umfram áætlaðar, og kannske varla þær.

Hæstv. forsrh. sagði, að ég hefði dregið dár að því að bera mál undir kjósendur. Það hefi ég nú ekki gert. En úr því að hann kom að þessu, þá get ég gjarna sagt það, að ég tel það ákaflega ófullkomið málskot, að skjóta til þess dómstóls, þar sem 1/3 getur borið 2/3 dómaranna ofurliði. Ég vil bjóða hæstv. forsrh., að bera þetta kosningamal undir þjóðaratkvæði, en ég vil ekki gera það á þann hátt, að 1/3 ráði úrslitunum. Það kalla ég ekkert dómskot. Ég vil, að málinu sé skotið undir dóm þjóðarinnar, og það komi í ljós, hvort fleiri eru með eða móti. En að bera það undir þjóðina á þann hatt, að 1/3 eða minna ráði úrslitum, það er ekkert dómskot. Þá væri ástæða til að koma að því, sem hæstv. dómsmrh. sagði. Það voru ýms atriði í ræðu hans, sem væri ástæða til að athuga, ef ekki væri svo liðið kvöldið og ræðutímann. Það var gaman að heyra skýringar hans á þessu óskiljanlega fyrirbrigði, að embættismanni væri borguð hærri laun en lögákveðið er. Nú er það komið upp úr kafinu, að hæstv. dómsmrh. virðist ætla að fara að setja nýja grein í fjárlögin, nefnilega herkostnað. Það sem Sigvalda Kaldalóns var borgað fram yfir var herkostnaður í stríðinu milli læknanna og þjóðarinnar. Eins ætlar hann að telja mönnum trú um það, að þegar læknir kemur heim til hæstv. ráðh. og segir þau orð, sem honum líkar illa og er hræddur við, að þjóðin sé að berjast við læknana. Þetta er óðs manns æði.

Stjórnarblaðið Tíminn var líka nýlega að tala um herkostnað. Ég veit ekki, hvaða stríð stj. ætlar í. Þá minntist hæstv. dómsmrh. því miður á Gísla heitinn Ólafsson. Ég hélt, að hann hefði fengið þá ráðningu, að hann hefði séð, að missmíði var á því, sem hann talaði. En það er ekki svo að sjá. Það eru í þjóðsögunum til skepnur, sem kallaðar eru nárottur. Þær héldu til í kirkjugörðum og lögðust á náinn. Það er ekki mín sök, þó að þessi hæstv. ráðh. vilji endilega skipa sér í þennan flokk, en það gerir hann með ummælum sínum um Gísla heitinn Ólafsson. Hann segir, að samtímis og andstæðingar stj. hafi skammað hana fyrir framkvæmdir, þá hafi þeir skammað hana fyrir að leggja ekki í sæsímann. Nú hefir það verið sýnt og sannað, að það þurfti 200 –300 þús. kr. til að gera þessa samninga, sem Gísli heitinn hafði undirbúið. Og hann hafði útvegað lán með góðum kjörum til að standast þennan kostnað. Hæstv. dómsmrh. kennir í brjóst um Mikla Norræna, að þráðurinn skyldi verða ónýtur. — Hann lýsti Íslandsbanka með svörtum litum. En hvað gerði þessi hæstv. ráðh. og stjórnarflokkur hans? Tók hann ekki ábyrgð á bankanum til þess að bjarga lífi stj.? Með því dekkri litum, sem hæstv. ráðh. málar ástandið í bankanum, þegar ábyrgð var tekin á honum, því betur lýsir hann, hvað mikið þjóðin hefir orðið að borga fyrir það, að stj. fékk að halda lífi 1930. Hæstv. ráðh. vék að sundhöllinni. Það stafar ekki af getuleysi bæjarins, að sundhöllinni hefir ekki verið enn komið upp, heldur af því, að samningar voru sviknir. Það hafði verið lofað helmingi framlags.— Að ekki hafi verið hægt að útbúa eitt herbergi í barnaskólanum, þá veit ég ekki hvað hæstv. ráðh. kemur það eiginlega við. Það er hægt að finna dæmi um það, að skólar ríkisins séu ekki vel útbúnir. Í háskólanum verða stúdentar oft að sitja úti í gluggakistunum, af því að ekki eru til nógu margir stólar. Hæstv. ráðh. endaði svo ræðu sína með því að segja, að Íhaldið hefði sett allt á hausinn, landið og Vestmannaeyjar.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi deiluorð fleiri, en þegar ég renni huganum yfir þessar umr., þá finn ég til þess, að það er döpur útsýn, sem blasir við okkur, og er það að vonum. Það hafa gengið yfir landið mörg eindæma góðæri. Þjóðin hefir á þessum góðærum ausið tugum millj. í ríkissjóð, en þegar herðir að, þá er hjá þessum góðu ráðsmönnum enginn eyrir eftir. Þá verður að skera allt niður, og það verður að leggja á nýja og nýja skatta. Það er verið að tala unt það, sem helzta úrræðið, að leggja á meðallaunuðu mennina, þá sem ekki bera meira úr býtum á góðu árunum en annars. Og nú þegar herðir að, missa þeir annaðhvort stöðu sína eða að tekjur þeirra lækka. Nú verður að flýja á þeirra náðir til þess að knýja fram þessa einu millj., sem stj. vantar. Ofan á allt þetta bætist, að stj. hefir ekki meiri hl. þjóðarinnar að baki sér, og neitar að gefa þegnum sínum jafnrétti í kjördæmaskipunarmálinu.

Ég vil svo enda orð mín með því að óska þess, að þjóðin verði lýðfrjáls og sæmilega efnuð, að allir þegnar þjóðarinnar standi hlið við hlið og enginn reyni að hefja sig upp með því að taka sér meiri rétt en aðrir. Við erum of fámenn og fátæk þjóð til þess að slíkt misrétti verði þolað. Ég óska svo öllum, nær og fjær, ungum og gömlum, í hvaða stjórnmálaflokki, sem er, allra heilla. Ég vona, að allir taki höndum saman um að hreinsa allan saur og alla óheilbrigði úr okkar þjóðarlíkama.