14.03.1932
Neðri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (3391)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Halldór Stefánsson:

Ég vil aðeins með fáum orðum vekja athygli á brtt. mínum við frv. þetta, á þskj. 171. Brtt. eru eiginlega ekki nema að mjög litlu leyti efnisbreyt., en mér þykir of einskorðað í frv. að miða þessar framkvæmdir aðeins við eina tegund garðávaxta, kartöflurnar. Vildi ég því með brtt. þessum, að ákveðið yrði, að þetta skyldi ná jafnt til allra tegunda garðávaxta og grænmetis. Hygg ég að þessi kjallari og markaðsskáli geti komið að einu og sama gagni fyrir allar tegundir garðmetis. Það skiptir ekki miklu máli, þótt ég hafi valið þessari fyrirhuguðu byggingu annað nafn en í frv., eða kallað hann geymslu- og markaðsskála fyrir íslenzkar framleiðsluvörur. Ég geri með þessum brtt. ráð fyrir því, að ein gr. frv. falli niður. Í þessu felst þó ekki nein efnisbreyt. heldur er ein gr. í mínum till., sem nær yfir efni beggja.

Ég vil svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar að sinni, því að ég veit menn muni skilja efni till. minna til hlítar, er þeir hafa lesið þær.