11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í C-deild Alþingistíðinda. (3427)

57. mál, land Garðakirkju

Jón Baldvinsson:

Mér er ekki alveg ljóst, hvað hv. þm. Hafnf. á við með hjali sínu. Honum skilst, að ég hefði getað komið þessu máli fram með einhverjum samningum. Ég hefi gert það fyrir þetta mál, sem þm. venjulega gera fyrir þau mál, sem þeir taka að sér. Ég hefi borið það hér fram samkv. beiðni hlutaðeiganda og ég hefi talað nokkrum sinnum við hv. form. allshn. um frv. og ýtt á eftir því, að n. tæki það til athugunar.

Hv. allshn. hefir nú talsvert á sig lagt fyrir málið. Hún hefir farið suður að Görðum til þess að líta á, hvernig þar hagar til, og mæla landið, skrifað biskupi og dómsmrn. um málið og yfirleitt hefir hún gert allt mögulegt fyrir það — nema það, að láta það ganga áfram gegnum þingið.

Ég hefði e. t. v. skilið það, ef hv. þm. Hafnf. hefði staðið hér upp og sagt eitthvað í þá átt: Þér var nær að hafa mig með, því ég get hugað mér, að það vaki eitthvað slíkt fyrir hv. þm., að nú sjái ég, að þetta frv. komist ekki fram, af því að, gengið hafi verið framhjá þm. kaupstaðarins, sem á fimm flokksbræður hér í deildinni og einn flokksbróður í hv. allshn. Í þessu ljósi skoða ég ávítur hv. þm. til mín, um að ég hafi ekki fylgt þessu máli eins fast eins og ég hefði getað.

Það sem hv. þm. var að tala um, að stæði á Alþýðublaðinu í dag viðvíkjandi einhverju öðru máli, sé ég ekki, að komi þessu máli neitt við. Ég hefi aðeins lítið fljótlega á það, sem þar stendur. Það, sem hv. þm. á við, er sennilega ekki nema einhver orðrómur, sem gengur um stjórnarskrármálið.

Annars býst ég við, að hvorugur okkar hv. þm. Hafnf. vilji fara að binda þetta litla mál við afgreiðslu stjórnarskrármálsins. Hv. þm. sagði, að ef mér hefði verið þetta kappsmál, þá hefði ég sennilega getað komið frv. betur áleiðis. Ég get sagt honum, að ég flutti málið í fullri alvöru og ég hefi sýnt það með því að tala nokkrum sinnum um það við hv. allshn. Þar eigum við Alþýðuflokksmenn ekki fulltrúa frekar en í öðrum n. þingsins. Annan kost átti ég ekki. Ég hefði e. t. v. getað snúið mér til hæstv. forseta fund eftir fund og beðið hann að reka á eftir n., en það er nú mín reynsla, að þegar farið er að þráreka svo eftir nefndum, þá séu þær til með að sitja nokkuð fast á málunum. Ég reyndi hitt, sem ég áleit líklegra til úrslita, að tala við form. n. Það hefir þó því miður farið svo, að málið mun ekki geta fengið afgreiðslu á þessu þingi, og tek ég undir það með hv. þm. Hafnf., að það er mjög óheppilegt, að Hafnfirðingar skuli ekki geta fengið landið útmælt á komandi hausti.