31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í C-deild Alþingistíðinda. (3436)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Magnús Guðmundsson:

Ég vil út af orðalagi 1. gr. frv., þar sem talað er um forgangskröfur, spyrja, hvort þessir menn, sem síldina hafa saltað, hafi verið starfsmenn einkasölunnar sjálfrar. Mér skilst það skipta verulegu máli, því að ég held ekki, að þeir eigi forgangskröfur á hendur einkasölunni, ef þeir hafa ekki verið hennar eigin starfsmenn. Annars finnst mér þetta frv. vera varhugavert að því leyti, að þar stendur, að þeir skuli fá öll sín laun greidd, sem þegar hafa fengið meiri hluta þeirra greiddan. Hvað er þá um þá menn, sem ekkert hafa fengið?

Ég er hissa á því, að ekkert skuli heyrast um þetta frá hæstv. stj., en nú sé ég, að hæstv. forsrh. kveður sér hljóðs, svo að búast má við, að hann gefi upplýsingar.

Ef eitthvað hefði átt að gera með þetta frv., og eins það frv., sem var næst á undan á dagskránni, hefði átt að setja þau inn í frv. um gjaldþrotaskipti einkasölunnar. Það er næsta undarlegt að vera að hafa þrenn lög um þetta mál.

Ég tók ekki eftir því hjá hv. flm., um hve mikið fé hér væri að ræða. Ég veit ekki. hvort það hefir verið athugað, en nauðsynlegt er að fá allar upplýsingar.

Mig minnir, að hinir ógreiddu tollar nemi um 300 þús. kr. Væri nógu fróðlegt að vita, hve mikill hluti þess myndi fara til greiðslu á verkalaunum.