15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í C-deild Alþingistíðinda. (3471)

368. mál, skiptalög

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég skal kannast við það, að hv. 2. þm. Skagf. og hv. 2. þm. Reykv. hafa mikið til sins máls. Fljótt á litið virðist ekki rík ástæða til að flytja þetta frv., ef skiptalögin væru almennt skilin eins og þeir skilja þau. En frv. er flutt samkv. ósk landssímastjóra, og tilefnið var það, að einn skiptaráðandi felldi nú í vetur úrskurð í þessu efni, gagnstætt því sem venja hefir verið, og þvert á móti þeim úskurðum, sem áður hafa fallið um forgangskröfurétt símagjalda. (EA: Hvar var það?). Í Hafnarfirði. Með ákvæðum þessa frv. á að útiloka það, að slíkt geti komið fyrir oftar. Ég get fallizt á þá tillögu hv. 2. þm. Reykv., að setja ekki í lögin tæmandi upptalningu, heldur nefna símagjöldin o. fl. eins og dæmi þess, hvað átt væri við í lögunum, þegar talað er um forgangsréttarkröfu á gjöldum til ríkissjóðs. Ég get líka fallizt á það, sem hv. þm. sagði, að frv. í þeirri mynd, sem það hafði frá hendi landssímastjóra, geti gefið tilefni til misskilnings, á þá leið, að einhver ótiltekin gjöld verði ekki álitin hafa forgangskröfurétt, þótt til ríkissjóðs fellu.

En að því er kemur til afnotagjalda af útvarpstækjum, þá minnir mig, að það sé beinum orðum fram tekið í útvarpslögunum, að þau gjöld hafi forgangskröfurétt. Ef svo er ekki, þá getur vel átt við að breyta 1. gr. þessa frv. í þá átt, að hún væri skýring á því, við hvaða opinber gjöld væri átt í þessari breyttu gr. skiptalaganna, og nefna þ. á m. símagjöld og útvarpsgjöld. Það er ekki annað en gott um það að segja, að lögfræðingar deildarinnar gefi sínar skýringar á þessu máli, og vona ég, að gott samkomulag geti fengizt um afgreiðslu málsins fyrir 2. umr. og um þá búningsbót, sem rétt þykir, að frv. fái.