15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (3472)

368. mál, skiptalög

Magnús Guðmundsson:

Ég skal ekki lengja mikið umr., því að það er óþarft. Eins og tekið er fram í grg., er enginn efi á, að símagjöldin hafa forgangsrétt, eins og önnur opinber gjöld, enda hafa áður verið felldir úrskurðir um það. En út af þessu eina tilfelli um nýlega uppkveðinn úrskurð er ekki ástæða til að breyta lögunum, þegar margir úrskurðir hafa áður fallið gagnstætt honum. Og viðvíkjandi þessum eina úrskurði verður engin bót ráðin önnur en sú að áfrýja honum.

Ég er ekki heldur viss um, að það sé heppilegt að nefna símagjöldin sem dæmi þess í skiptalögunum, hvaða gjöld hafi forgangsrétt, og sé ekki meiri ástæðu til þess að nefna þau en hver önnur gjöld, því að það er enginn vafi á því, að gjöld til ríkissjóðs hafa undir öllum kringumstæðum forgangsrétt. Ég er hræddur um, að ef einhver gjöld eru nefnd sem dæmi í lögunum, þá gæti það leitt til ágreinings um forgangsrétt annara gjalda. Að vísu legg ég ekki á móti því, að frv. gangi til 2. umr., en ég held, að hv. n. geti ekki gert annað betra í þessu máli en að láta frv. hvílast að fullu og taka það ekki á dagskrá aftur.