29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í C-deild Alþingistíðinda. (3485)

71. mál, sauðfjármörk

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Það er ekki mikið, sem á milli ber hjá meiri og minni hl. N. kannast öll við það, að ástæða sé til að setja nánari reglur og fastari ákvæði um sauðfjármörk, enda er ekki mikill munur á till. meiri og minni hl. Minni hl. vill afgr. málið nú á þessu sinni með rökst. dagskrá, sem innibindur það í sér, að héraðsstjórnirnar fái tækifæri til að segja álit sitt um málið, en meiri hl. bindur samþykkt frv. við það, að það komi ekki til framkvæmda fyrr en 1935. Okkur í minni hl. fannst þess vegna heppilegri leið að nota þennan tíma til þess að gefa héraðsstjórnum, sem frá öndverðu hafa haft þessi mál með höndum, færi á að segja sitt álit um það og leita till. þeirra um þetta mál. Þetta mundi áreiðanlega vera mikill vinningur fyrir málið, að fá álit og till. frá héraðsstjórnum, svo það gæti orðið betur undirbúið og til þess vandað heldur en ef frv. er samþ. nú. Hitt virðist harla tilgangslítið, að samþ. Þetta frv. nú, en ákveða jafnframt, að það skuli ekki kom. til framkvæmda fyrr en eftir langan tíma. Það er ýmislegt í þessu frv., sem er þannig vaxið, að það orkar tvímælis. Ég fyrir mitt leyti er þess fullviss, að sumum ákvæðum þessa frv. væri miklu betur skipað á annan veg en þar er gert ráð fyrir. Ég vil í því sambandi benda á, að í frv. er gert ráð fyrir að setja allsherjar markadóm, sem á að eiga sæti í Reykjavík. En það er nú komið í framkvæmd á a. m. k. einum eða fleiri stöðum á landinu, að menn á svæðum, þar sem miklar samgöngur fjár eru, hafa komið upp markadómi hjá sér, sem sker úr ágreiningi, sem upp kemur í þessu efni á þessu samgangnasvæði. Þetta hefir gefizt vel. Er því fullkomin ástæða að taka til athugunar, hvort ekki er hægt á eins heppilegan eða heppilegri og kostnaðarminni hátt að koma í veg fyrir sammerkingar og erfiðleika og skaða, sem af því leiðir fyrir sauðfjáreigendur, með því að fara einmitt þessa leið, að ákveða, að markadómur skuli gilda fyrir ákveðið svæði, þar sem miklar samgöngur eru milli héraða á afréttum. Það yrði líka miklu hægra um vik fyrir markadóm, sem þannig tæki yfir, ákveðið svæði, að gera fljótlega út um slík mál. Hitt yrði miklu erfiðara og þunglamalegra í framkvæmd, að hafa einn allsherjarmarkadóm í Reykjavík.

Þá vil ég benda á það, að varhugavert er, eins og gert er í þessu frv., að einskorða markaskrárnar við sýslur. Það getur sumstaðar verið miklu hagkvæmara að leggja önnur takmörk til grundvallar fyrir samningu markaskránna. Ég sé það á umr. sem fóru fram um þetta mál á vetrarþinginu í fyrra, að hv. þáv. þm. N.-Þ. (BSv) benti á, að ekki færu saman sýslutakmörk og fjallskilahéraðatakmörk. Ennfremur má benda á, að samin hefir verið sérstök markaskrá yfir svo kallað lngólfslandnám, það er svæðið milli Ölfusár og Botnsár. Það felst þess vegna í okkar rökst. dagskrá, að stj. sendi þetta mál til umsagnar héraðsstjórna og óski eftir till. þeirra. Og þar sem eins og áður er sagt, að meiri hl. gerir ráð fyrir, að frv. komi ekki til framkvæmda fyrr en 1935, þá skilst mér, að enginn eðlismunur sé á afgreiðslu málsins á þeim grundvelli, sem við í minni hl. leggjum til, en hinsvegar ætti að vera hagkvæmara að nota þennan frest til þess að fá betri grundvöll undir hagkvæma löggjöf í þessu efni. hér í bænum er nú staddur maður norðan úr Norður-Þingeyjarsýslu, sem hefir mikið hugsað um þetta mál og kvað vera sérstaklega markglöggur maður, eftir því sem hv. þm. N.-Þ. segir. Hann hefir skrifað n. 2 bréf um þetta mál og segir, að það skorti mjög um undirbúning þessa frv. og taka verði betur til athugunar ýms atriði áður en l. eru samþ. um þetta efni. Ég vil ennfremur geta þess, að á þingmálafundum, sem ég hélt í Borgarfirði veturinn 1931, var á flestum fundunum samþ. till. um að skora á Alþingi að afgr. ekki l. um sauðfjármörk án þess að málið væri borið undir héraðsstjórnir. Þessi till. okkar er því í samræmi við óskir bænda þessa héraðs. Það hafði þá heyrzt, að stj. legði fyrir þingið frv. um sauðfjármörk, og þeir álitu bezt fyrir góða og heppilega afgreiðslu málsins, að héraðsstjórnir gætu borið fram till. um það, áður en því væri ráðið til lykta á þingi.