29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (3490)

71. mál, sauðfjármörk

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. 1. þm. Eyf. hefir svarað hv. þm. S.Þ. Ég þarf því ekki annað að segja en að undirstrika það, að aðalmunurinn á því tvennu, að samþ. frv. nú eða að vísa því til héraðsstjórnanna, er sá, að hætt er við, að þær taki slíkri málaleitan ekki svo mjög alvarlega, að mikið verði á svörum þeirra að græða, ef þær þá annars hafa fyrir því að svara. Ég get heldur ekki hugsað mér, að verulegar aths. komi við frv., nema þá helzt 15. gr., að markasvæðunum yrði öðruvísi niður skipt. Verði hinsvegar frv. samþ., þá verður það tekið alvarlega, og er það kemur til framkvæmda, þá munu þeir gallar, sem á því eru, brátt koma í ljós, og væri þá hægt að taka til greina rökstuddar. till. til breytinga. Og slíkar rökst. aths. gætu jafnvel verið komnar fram og teknar til greina áður en l. kæmu til framkvæmda. — Það er þetta, að það sé sýnt með afgreiðslu málsins hér, að það sé meint alvarlega. Annars geta sýslun. hugsað sem svo, að þetta kunni að dragast. Getur það orðið til þess, að þær fari að láta prenta nýjar markaskrár og leggja þannig í óþarfan kostnað.

Hv. þm. S.-Þ. sagði, að ég hefði látið þau orð falla, að ég væri ekki fyllilega ánægður með þetta frv. Þetta er rétt. En til þess að þau orð mín valdi ekki misskilningi, verð ég að skýra nánar, að hverju þau lúta. Það er álit mitt, að annað skipulag væri hentugra á markamálunum, en það er, að hver hreppur og hver sýsla hefði sitt ákveðna mark. Inn á þessa braut hefir nokkuð verið gengið í Kjósarsýslu. Hugmyndin er sú, að sýslan hafi yfirmark, en hreppar undirmark á hægra eyra. Einstakir menn skipti svo á milli sin mörkunum á vinstra eyra. Þessi regla mundi gera skilin betri og sundurdrátt allan öruggari og einfaldari. Þessa leið hefir nú verið reynt að fara hér á alþ., en hún mætti þá harðri mótspyrnu, vegna fastheldni manna og tryggðar við gömul mörk sín. Ég hygg, að þessu muni engin leið vera að koma fram á Alþingi í náinni framtíð. En þar sem ég er vonlaus um það þá vil ég taka það næstbezta, sem ég álít þá leið vera, sem með frv. þessu er lagt til að farin verði. Hv. þm. ætti að skilja þetta. Það er alveg það sama og ef ég t. d. ætlaði að ferðast norður í land. Ég mundi ef til vill helzt kjósa bíl til fararinnar, en ef hann væri ekki fáanlegur, þá tæki ég hið næstbezta, sem mundi þá verða hestur, — og þá vitanlega bezta hestinn, sem völ væri á.

Svo er þá þessu varið með afstöðu mína til þessa frv. Sú leið, er ég helzt vildi fara, er áreiðanlega skýrust, heppilegust og ódýrust. En þar sem ég er vonlaus um, að nægur meiri hl. aðhyllist hana, þá tel ég þessa, sem frv. gerir ráð fyrir, heppilegasta — og að frv. verði gert að lögum sem fyrst.