17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (3512)

71. mál, sauðfjármörk

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það er rétt, sem hv. 2. þm. Eyf. tók fram, að hv. deild var ekki fullskipuð þegar 2. umr. fór fram, og má því vera, að allt sé enn á huldu um afdrif frv.

Hv. þm. vill halda því fram, að það sé réttast að vísa frv. til héraðsstjórnanna til umsagnar, til að geta síðar notfært sér bendingar þær, er þaðan kunna að koma. Ég fyrir mitt leyti hefi ekki trú á, að þær bendingar yrðu þannig, að gott yrði að taka þær til greina, ef gengið er inn á það fyrirkomulag, sem frv. ætlast til að verði, að hafa landið allt eitt umdæmi. Ég efast ekki um, að sýslunefndirnar geti gefið góðar bendingar að því er snertir þeirra hérað, en ég efast um, að þær verði svo samræmar, að þær komi að verulegu haldi, ef setja á heildarlöggjöf. Það má náttúrlega til sanns vegar færa, að þetta þyrfti ekki að tefja málið, þar sem svo er ráð fyrir gert, að lögin komi ekki til framkvæmda fyrr en um áramót 1934–35. En ég held, að þetta hafi litla þýðingu.

Annars skildist mér það á hv. þm., að það vekti fyrir honum að leggja á móti frv. Hann taldi upp gallana á fyrirkomulagi þess, taldi það vera þunglamalegt og kostnaðarsamt. Það þarf sannarlega ekki að vísa málinu til héraðanna til að fá bendingar um þessi atriði. Alþingi er vissulega eins fært að dæma um þetta og gera tillögur um það. Mér virðist gjaldið fyrir birtingu marka í markaskrám vera eins hátt og venja er nú víða á landinu. Ég veit ekki betur en markaskrár hafi borið sig með þessu gjaldi. Þær ættu ekki síður að gera það, þótt þetta frv. yrði samþ. Sá maðurinn, sem á að hafa aðaleftirlitið, er nú launaður starfsmaður hjá Búnaðarfél. Íslands. Það má vera, að ætla þurfi honum einhverja aukaþóknun fyrir þetta, en miklu getur hún ekki numið.

Hv. þm. taldi það óheppilegt, að hver sýsla væri umdæmi út af fyrir sig og að ekki væru leyfðar sammerkingar í tveimur nágrannasýslum. Ég býst við, að út af þessu megi bregða, ef þörf er á, og í 16. gr. er einmitt gert ráð fyrri því. Það er ekki ætlunin að banna sammerkingar nema þar, sem þær verða eigendunum að óliði.

Annars verður hv. d. að sjálfsögðu að skera úr því, hvað við frv. verður gert.