28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í C-deild Alþingistíðinda. (3550)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Það fer nú að vonum, þó að við, ég og hv. 4. þm. Reykv., verðum ekki sammála í þessu máli. En eitt atriði ættum við þó að geta orðið sammála um, sem sé það, að þetta mál þarf að leysa á einhvern hátt. Verði það ekki leyst nú á þann skynsamlega veg að samþ., frv. það, sem hér liggur fyrir, þá verður það tekið upp aftur á næsta þingi, og svo koll af kolli, unz það fær einhverja lausn, sem verður þá ef til vill lakari fyrir lærðu vélstjórana en þessi. Því þó hv. 4. þm. Reykv. tali máli vélstjórafélagsins, þá eiga undanþágumennirnir líka sinn rétt, sem aðrir þm. eru svo sanngjarnir að sjá og eiga að sjá.

Hv. 4. þm. Reykv. vildi gera mikið úr þeim mótmælum, sem komið hafa frá utanþingsmönnum gegn þessu frv.; sérstaklega vildi hann gera mikið úr bréfi, sem hann las upp úr, frá Ólafi Sveinssyni. Ég veit nú ekki betur en að þennan mann sérstaklega megi skoða sem fulltrúa vélstjórafélagsins, þó hann sé kannske ekki í stjórn þess, enda ummæli hans mjög einhliða og hlutdræg. Ég vil t. d. benda á það, sem hv.4. þm. Reykv. las upp úr bréfinu, þar sem hann segir: „Hér virðist eiga að stíga stórt spor aftur á bak í öryggi í siglingum“. Eins og ég benti á í fyrri ræðu minni, er alls ekki hér um slíkt að ræða, Hvernig fer nokkur maður að láta sér detta í hug að segja, að það sé verið að stíga spor aftur á bak, þó farið sé fram á, að mönnum, sem stundað hafa vélstjórastarf í 5 ár, sé leyft að halda því áfram — frá því, sem áður var, þegar kyndurum, sem aldrei höfðu farið með stjórn gufuvéla, var leyft að taka að sér vélstjórn.

Sama er að segja um mótmæli vátryggingarfélaganna, að á þeim er ekkert að byggja, af sömu ástæðu. Hafi þessi hætta ekki legið fyrir, þegar menn, sem aðeins höfðu verið kyndarar, gátu fengið að stjórna vél, þá liggur hún sannarlega ekki fyrir nú. Og hér er alls ekki um það að ræða að halda áfram að veita undanþágur, heldur einmitt að hætta því, þó þannig, að þeir menn, sem þegar hafa fengið undanþágur, fái áfram að hafa á hendi samskonar störf. Með það ættu allir aðilar að geta verið ánægðir, því það er fullkomlega hættulaust og réttmætt.

Hv. þm. var mjög fjölorður um það, að það væri óréttmætt að hleypa straum ómenntaðra manna inn í störf fagmanna eins og t. d. vélstjóra. Ég get alls ekki fallizt á, að þeir menn, sem um mjög langt árabil hafa verið kyndarar og skarað þar fram úr og síðan fengið vélstjóraréttindi með bráðabirgðaskírteinum, og eru búnir að stunda vélstjórastarfið í 5 ár, séu ómenntaðir í því starfi. Og ég get varla skilið, að hv. 4. þm. Reykv. haldi þessu fram í alvöru, þó hann fleygi þessu svona fram í d.

Hv. þm. gat um, að tala þessara undanþágumanna mundi vera um 29. Mér satt að segja blöskrar þetta nú ekki, þegar þess er gætt, að það vantar einmitt þessa tölu til þess að til séu nægjanlega margir vélstjórar með prófi, Það er nú svo um hverja stétt sem er, að það ganga alltaf nokkrir menn úr, sem ekki stunda starfið af ýmsum ástæðum. Eftir reynslu annara þjóða mun það vera svo, að úr þessari stétt gangi um 30%, sem snúa sér að öðru eða ganga úr á annan hátt, og ég býst við, að hér á landi verði þetta svipað, því hér er um að ræða margar stöður í landi, sem menn þarf til með samskonar menntun, og það eru margir menn, sem heldur vilja vera á landi en sjó og hverfa því frá vélgæzlu á skipum. En þó að það væri fullskipað í öll rúm, þá eru í þessari stétt, eins og öðrum stéttum, menn, sem eru óheppilegir til starfsins, þó þeir hafi til þess tilskilda menntun. Og þess munu dæmi einmitt um vélstjóra, sem verið hafa á skipum, að það hafi komið fyrir, að þá hefir þurft að flytja um borð af ástæðum, sem ég vil ekki nefna hér, en menn mun renna grun í, hverjar hafi verið, og væri þeim mönnum bezt að komast sem fyrst í land fyrir fullt og allt. Auk þess gengur svo og svo mikið af vélstjórum úr á hverju ári, af ýmsum öðrum og eðlilegum ástæðum.

Hv. þm. minntist á það, að aðsóknin að vélstjóraskólanum væri miklu minni fyrir það, að til væri undanþágur fyrir vélstjóra, en samtímis talaði hv. þm. um það, að undanþágumönnum hefði verið það alla tíð ljóst, að þeir yrðu að hverfa frá starfi sínu strax og nógu margir skólagengnir vélstjórar yrðu til. En hvernig gátu þá undanþágurnar orðið hindrun fyrir því, að menn sæktu skólann, ef þeir gátu byggt á því, að hinir yrðu reknir í land strax og þeir kæmu út af skólanum? Nei, þeir gátu einmitt ekki byggt á þessu, m. a. af því, að það voru til fordæmi, sem bentu í þveröfuga átt. Ég vil t. d. benda á, að þegar login um skipstjórnarmenn voru sett, þá voru gerðar undanþágur um þá skipstjóra og stýrimenn, sem gegnt höfðu skipstjórnarstörfum til þess tíma, og þeim leyft að starfa áfram, þó þeir uppfylltu ekki menntunarskilyrði laganna. Hér er í raun og veru um nákvæmlega hliðstætt dæmi að ræða.

Hv. þm. þótti það undarlegt, að sjútvn. skyldi vera sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. Hv. þm. þarf ekki að finnast þetta undarlegt. Sjútvn. hefir ekki eins og hann tekið að sér að reka erindi stjórnar vélstjórafélagsins, heldur hefir hún athugað málið óhlutdrægt frá báðum hliðum og komið þá auga á það, að undanþágumennirnir áttu líka sinn rétt, sem skylt var að taka tillit til.

Hv. þm. lét sér sæma að tala um svikamylnu í þessu máli. Hann nefndi það svikamylnu, að gengið var út á þá braut, að veita vélstjórnarleyfi með undanþágu. þetta gæti verið réttmætt, ef hann flytti ekki mál sitt í umboði þeirra, sem urðu þess valdandi, að þessi svikamylna varð til, með því að leggja á móti því, að fengnir væru hingað fagmenn frá öðrum löndum, og á þann hátt hafa sjálfir komið á þessari svikamylnu og sjálfir verða því að bera afleiðingarnar af því. að hún varð til.

Viðvíkjandi því, að knýja undanþágumennina til að setjast á skólabekkinn, þó þeir séu jafnvel komnir um fimmtugt eða yfir hann aldur, eins og þeir eru mjög margir, þá álít ég það allt of harða og ósanngjarna kröfu. Hinsvegar mun óhætt að ganga út frá, að nokkrir hinna yngri undanþágumanna láti sér ekki nægja þau takmörkuðu réttindi, sem þeir gætu öðlazt samkv. þessu frv., ef að logum yrði, heldur mundu ganga á vélstjóraskólann. Er þá sanngjarnt að auðvelda heim skólagönguna með því að gera minni kröfur til þeirra t. d. um smíðanám, og er einmitt gert ráð fyrir þessu í 2. gr. frv. Í þessu erum við, ég og hv. 4. þm. Reykv. á sömu skoðun. Aðeins get ég ekki fallizt á, að till. hans komi fram sem brtt. við 1. gr. frv. Um það getur ekki verið að ræða. Að öðru leyti get ég fallizt á að breyta 2. gr. eitthvað, og get gjarnan átt samninga við hv. þm. um það. Og jafnvel þó frv. yrði tekið út af dagskrá í þeim tilgangi, þá gæti ég fallizt á það, þó með því skilorði, að 1. gr. fengi að haldast óbreytt. Ég vil að síðustu leyfa mér að undirstrika það, sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að þetta er mál, sem þarf að leysa, og ef það verður ekki gert á þessu þingi, þá verður það gert síðar. Því þó að stöku hv. þm. kunni að gleypa flugu hv. 4. þm. Reykv., þá hygg ég, að þeir við nánari athugun átti sig á því, að frv. er aðeins fram borið til þess að tryggja rétt þeirra manna, sem langan tíma hafa unnið að vélstjórn samkv. bráðabirgðaskírteini, tryggja það, að þeir verði ekki fyrirvaralaust reknir frá þeim störfum, sem þeir flestir eða allir hafa gegnt með mestu prýði. Á hinn bóginn er og í frv. tekið sanngjarnt tillit til skólagengnu vélstjóranna. Þeir einir hafa óskert réttindi og ganga því væntanlega fyrir í allar beztu stöðurnar. Og með frv. er tekið fyrir það með öllu, að veita megi undanþágur eftir árslok 1935.