27.05.1932
Efri deild: 85. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (3564)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Bjarni Snæbjörnsson:

Það hlýtur að stafa af misskilningi hjá hv. frsm., er hann sagði við fyrri hl. þessarar umr., að ég væri að hafa á móti því, að vélstjóraskólinn væri til eða starfaði. (JakM: Vélgæzlunamskeið). Já, ég áleit þau þýðingarlaus fyrir þá menn, sem hér ræðir um, en ég hefi á engan hátt stuggað við skólanum, enda er ekki gert ráð fyrir, að þessir menn hafi rétt til vélgæzlu á stærri skipum nema sem undirmenn. En ég tók það skýrt fram og stend við það, að fáar stéttir eru eins bundar við verklega æfingu eins og einmitt vélstjórar, og sú æfing er þeim jafnvel meira virði en bókleg þekking, enda veit ég, að annarsstaðar er svo litið á þetta mál. Frv., sem borið var fram á vetrarþinginu í fyrra, kom þessu frv. af stað. Þá var þess getið, að maður fær rétt til vélgæzlu í Noregi an þess að hafa gengið á nokkurn skóla þar. Þetta þótti leyfilegt þar, og úr því að slíkt þótti rétt hjá Norðmönnum, sem þurfa svo mjög á duglegum óum að halda, ætti það ekki síður að duga hjá okkur. Til frekari sönnunar skal ég geta þess, að fram hefir komið við umr. í Nd., að margir vélstjórarnir, sem byrjuðu á íslenzku togurunum, höfðu ekki skólanám. Einn þeirra var t. d. smiður áður en hann hóf vélgæzlu. Þetta sýnir, að „ólærðir“ vélstjórar geta fyllilega staðið á sporði þeim, sem hafa bóklegt nám, en litla praktíska þekkingu.

Ég vil því ekki kannast við það, að afskipti mín af þessu máli hafi sýnt, að ég sé á eftir tímanum og móti menntun. Það, sem veldur afstöðu minni, er það, að mér finnst það hastarlegt að leika svo grátt þá menn, sem árum saman hafa gert útgerðinni og vélstjórum sjálfum ómetanlegt gagn, að bægja þeim með öllu frá atvinnu. Þess er að gæta, að hefðu þessir „ólærðu“ vélstjórar ekki verið teknir, hefðu erlendir vélstjórar verið teknir í þeirra stað, sem hætt er við að hefðu síðan ílenzt og haldið atvinnu fyrir skólagengnum vélstjórum síðar.

Það liggur í augum uppi, að vátryggingargjöld geta ekki hækkað frá því, sem nú er, þar sem vátryggingarfélögin hafa tekið þessa menn gilda hingað til. Þetta eru sömu mennirnir, og eftir því sem þeir eru lengur við vélstjórn, hlýtur þeim að fara fram.

Hv. frsm. gerði lítið úr vottorðum þeim, sem hver undanþágumaður yrði að fá hjá fullgildum vélstjóra til að fá vélgæzluréttindi. En úr því að hann gerir lítið úr vottorðum vélstjóra, sem þó hljóta að bera hag félags síns fyrir brjósti, því leggur hann þá svo mikið upp úr vottorðum skipaskoðunarmannsins og vélaeftirlitsmannsins, sem báðir eru vélstjórar og geta því ekki verið óhlutdrægir. Auðvitað má allt rengja og véfengja, en alveg eins og ég held, að þessir menn hafi gefið vottorð eftir beztu vitund, svo ætla ég, að vélstjórar geri yfirleitt.

En þungamiðja málsins er sú, að harkalegt er að reka þessa menn frá starfi sínu an þess að bjóða þeim aðrar bætur en þær, að fara á vélstjóraskóla eða vélgæzlunamskeið, sem miklir meinbugir eru á, einkum fyrir gamla menn. Þetta eru einu launin, sem þeir eiga að fá fyrir gott og mikið starf.

Þótt vélstjórastétt vor nú sé vafalaust góð og margir prýðilegir menn innan stéttarinnar, þá er þó misjafn sauður í mörgu fé, og t. d. allmargir drykkfelldir menn innan stéttarinnar. Ég segi fyrir mig, að ég kysi heldur að sigla með gætnum vélstjóra með verklegri þekkingu, en bóklærðum manni, sem væri óstarfhæfur vegna drykkjuskapar. Vátryggingarfélög og eftirlitsmenn hafa ekki gert aths. um þessa menn, sjálfsagt af því að stéttin hefir verið svo fámenn, að alla hefir orðið að nota. En ef óprófuðum vélstjórum með nægilegri praktískri þekkingu væri bætt við hana, mætti a. m. k. ætla, að drykkjumenn í stéttinni ræktu betur starf sitt en áður, er þeir vissu, að úr fleirum væri að velja. Auðvitað má svo þar að auki ganga út frá því, að ábyggilegir og góðir vélstjórar, sem tekið hafa próf, gangi jafnan fyrir þeim, sem próflausir eru.

Hv. frsm. sagði, að mismunandi próf væru á stýrimannaskólanum, minna og meira próf. Þetta er rétt, en þeir, sem ganga undir minni próf, hafa engin réttindi áður til skipstjórnar á smáskipum. En hér er um menn að ræða, sem hafa haft réttindi til vélgæzlu til ársins í ár. Þegar lögbundið var, að stýrimenn skyldu hafa próf, fengu gömlu skipstjórarnir á skútunum að halda áfram réttindum sínum.

Meðan lítið var um lækna lögðu margir í sveitum, sem læknishæfileikum voru gæddir, stund á lækningar í sveitum, þótt próflausir væru, og gerðu oft mikið gagn. Þessum mönnum hefir ekki verið meinað að halda áfram læknisstörfum, þótt læknir kæmi. Þingið hefir, seinast í þeim fjárl., sem afgr. voru að nokkru leyti hér í hv. d. um daginn, sýnt þetta sama, að ef það reynist erfitt að ná í fólk til að starfa í vissum stéttum, þá sé sjálfsagt að styðja þá menn, sem vilja starfa í þeim stéttum, þó þeir séu í sjálfu sér ómenntaðir til starfsins, ef þeir bara hafa betri menntun til þess en almenningur, — og á ég þar við styrki í fjárl. til dýralækna.

Yfirleitt er það það eina, sem vakir fyrir mér, að mér hefði fundizt það réttara, að hv. sjútvn. hefði borið fram brtt. í þá átt að hækka kröfurnar til þessara manna, þannig, að þeir hefðu orðið að vera lengur við starfið en í 5 ár til að geta öðlazt þessi réttindi, því það hefði bæði gert það að verkum, að færri menn hefðu komið til greina, og þó aðallega hitt, að þeir menn, sem um mjög langan tíma hafa verið við vélgæzlu og orðnir eru ómögulegir til að setjast á skólabekkina, að mestu leyti, hefðu ekki þurft að hrökklast frá starfinu. En með þessu móti finnst mér hv. sjútvn. algerlega hafa brugðizt skyldu sinni, þar sem hún vill, að allir þessir menn séu alveg titilokaðir frá því að njóta nokkurra hlunninda, og er þeim þá illa launað með því að svipta þá þannig starfi, því þeir hafa þó óneitanlega gert afarmikið gagn fyrir okkur, einmitt á þeim tímum, þegar vandræðin voru mest í vélgæzlunni.

Ég vildi þess vegna mælast til þess við hv. þdm., að þessi till. hv. sjútvn. væri felld og frv. látið ganga til 3. umr., en svo væri hægt við 3. umr. að koma með brtt. í þá átt að fara inn á þrengra svið með undanþágurnar fyrir þessa menn, svo að þeir yrðu færri, sem fengju þessi réttindi. Brtt. gengju þá í þá átt, að það verði aðallega eldri menn, sem orðið er erfitt um að læra, bæði af því, að þeir eru orðnir stirðari til náms en áður, eða þá af því, að þeir eru orðnir stórir fjölskyldumenn, sem eiga erfiðara með að komast að heiman, og yrðu sennilega að fá lán til að halda upp heimilinu á meðan, sem fái þessa linkind, en að hinir yngri verði þá að komast í gegnum skólann til að fá þessi réttindi.