03.06.1932
Efri deild: 92. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég hefi gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls á þskj. 494, en þar sem svo langt er síðan því var útbýtt, má vera, að hv. þm. hafi það ekki við hendina. Ég hefi lýst því yfir í nál., að ég sé ekki mótfallinn því, að lagður sé skattur á benzín til bifreiða, ef honum er varið til þess að koma vegunum í nýtízku horf, gera á þeim varanlegt ryklaust slitlag. Þessi leið hefir verið farin viða í öðrum löndum, og er nú þegar búið að koma vegunum allvíða í þetta horf. Þessar umbætur koma bifreiðaeigendunum sjálfum að mestum notum. Þeir eyða minna benzíni og minna gúmmi á þessum góðu, nýju vegum en hinum gömlu.

þetta frv. ætlar mikinn hluta af bifreiðaskattinum til almenns viðhalds á malarvegum, sem ríkissjóður hefir líka kostað til. Sé ég ekki, hvaða leið er til þess að koma vegum landsins í gott horf, ef neyðin knýr oss til þess að verja í viðhald vega tekjustofnum, sem aðrar þjóðir nota til þess að endurskapa vegakerfið. Því er ég því mótfallinn, að benzínskatturinn sé notaður til viðhalds á þessum ófullkomnu vegum, sem nú eru hér gerðir. En ef einhver breyt. fengist á ákvæðunum um notkun þessa fjár, þá hefi ég ekkert á móti upphæð benzínskattsins. Má telja 4 aura af hverjum lítra lagt gjald, og reynslan hefir sýnt, að olíufélögin bera nokkurn hluta þessa skatts, því að þar, sem hann er þar, er benzín ekkert dýrara að tiltöu en annarsstaðar. Aftur er næsti liður í skattaákvæði 1. gr., 1 kr. innflutningsgjald af hverju kg. af hjólabörðum og gúmmislöngum, mjög ósanngjarn, svo sem nú er ástatt. Nýlega var hér stofnað félag bifreiðaeigenda, og hefi ég átt tal við stjórn þess um frv. Lítur hún svo á, að ekki verði komizt hjá skatti á benzíni til endurbóta á vegakerfum landsins, en hún lítur svo á, að skattur á hjólabörðum komi harðar niður á flutningabifreiðum en sanngjarnt er. Segja þeir hann 60 kr. fyrir 4 hjólhringa á vörubifreið. Þessar bifreiðar slíta nú 1–2 samstæðum af hjólabörðum á ári með venjulegri notkun, og þó oftast 2 þetta er 120 kr. aukagjald á hverja flutningabifreið. Nú hefir kreppan í atvinnulífinu það í för með sér, að atvinna vörubíla er rýr, og telur félagið, að mjög væri óheppilegt, ef bifreiðaeigendur yrðu nú neyddir til þess að hækka flutningagjöld. Fer ég því fram á það, að við 3. umr. verði gerð tilslökun um þetta ákvæði, ef frv. á að ganga fram. Víkur þessu allt öðruvísi við í öðrum löndum, sem búin eru að koma sér upp fullkomnu vegakerfi, því að þar er slit á hjólabörðum hverfandi lítill hluti af ársútgjöldum bifreiða. Er slitið svo sem ekkert á vegum, þar sem er fullkomið slitlag úr asfaltsteypu eða þ. h., eins og nú er orðið hvarvetna í borgum og á fjölförnum vegum erlendis.

Um skiptingu fjárins á þeim grundvelli, að það komi að mestu leyti til notkunar við varanlegar umbætur og endurbætur á vegunum, hefi ég þegar tekið það fram, að ósanngjarnt er að taka þetta gjald af bifreiðum á þeim stöðum, sem hafa ekkert samband við þessi vegakerfi. Svo er t. d. um Ísafjörð og héruðin þar í kring, um Siglufjörð, Seyðisfjörð, Neskaupstað og Vestmannaeyjar. 4 öllum þessum stöðum er nokkuð af bifreiðum, sem yrðu að gjalda skatt, er færi þá út úr þeirra byggðarlögum. Þarf að breyta þessu. Annað atriði, sem er athugavert, er það, að þar sem frv. gerir ráð fyrir því, að meiri hlutanum af þessum tekjum skuli varið til umbóta á akfærum þjóðvegum, til akfærra sýsluvega og ræktunarvegarins í Vestmannaeyjum, þá er óhjákvæmilegt að láta nokkuð af skattinum renna til umbóta á vegum í þeim kaupstöðum, þar sem bifreiðarnar eiga heima. Kaupstaðir hér á landi eru ekki svo vel haldnir að tekjustofnum, að þeir séu einfærir um að koma götugerðinni í gott horf. Eru dæmi til þess, að götum í kaupstöðum er svo áfatt, að þær eru verri en núverandi malarþjóðvegir.

Ein af höfuðhvötunum til umbóta á vegunum er plága sú, sem er að ryki af bifreiðaumferð. Í nágrannalöndunum var það fyrst og fremst krafan um ryklausa vegi frá almenningi, sem rak á eftir endurbótunum. Er sérstök ástæða til slíks í kaupstöðum, þar sem þéttbýli er. Eru sérstök óþægindi að þessu og hætta á heilsutjóni, þar sem þéttskipað er mannabústöðum. Er því ekki hægt að komast hjá því að sinna réttmætum kröfum kaupstaðanna um að njóta eðlilegra hlunninda af þessum gjaldstofni, til þess að þeir geti komið vegum sínum í sæmilegt horf.

Í nál. mínu hefi ég lýst þessari hlið málsins og sýnt fram á, að það er ekki nægilega undirbúið til þess að frv. geti orðið að lögum. Hefi ég því lagt til, að því verði vísað til stj. Tek ég þá till. aftur við þessa umr. og bíð til 3. umr., svo að hægt sé að leita samninga um notkun fjárins, og yrði þá væntanlega aukið við því, að þessi löggjöf gilti aðeins til bráðabirgða eða til ársloka 1933. Hefi ég ekki fengið loforð fyrir því af hálfu stj. þeirrar, sem nú tekur væntanlega við, að þessi breyt. fáist, en þó vilyrði, sem gerir það að verkum, að ég er fús til þess að láta málið fara þessa leið.