19.02.1932
Neðri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í C-deild Alþingistíðinda. (3607)

15. mál, fimmtardómur

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þetta frv. hefir áður legið fyrir hv. Ed. og tvisvar fengið þar nokkra athugun, en aldrei komizt hingað til þessarar hv. deildar. Frv. er því nokkuð rætt og kunnugt orðið; þess vegna mun ég hafa sem fæst orð um það að þessu sinni, en sé mér þó ekki annað fært en rekja í nokkrum dráttum ástæðurnar fyrir því, að það er fram borið.

Þegar Íslendingar sömdu við Dani árið 1918 og fengu aukið sjálfstæði, reyndi þjóðin að draga inn í landið sem mest af því valdi, er áður var í höndum sambandsþjóðarinnar. Enda fór svo, að þegar á næsta ári, 1919, var borið fram frv. og samþ. lög á Alþingi um að gera yfirdóm landsins að aðaldómstól. Á ég þar við lögin um hæstarétt frá 1919. Að vísu var breytingin frá því sem áður var ekki önnur en sú, að tveimur dómendum var bætt við í yfirdóm landsins, og vissum atriðum breytt formsins vegna, af því að þetta atti að verða æðsti dómstóll landsins.

En eins og gefur að skilja, réð hinn vaknaði sjálfstæðishugur þjóðarinnar því, að málinu var hraðað svo, að ekki tókst að undirbúa það að öllu leyti sem skyldi. Það kom líka á daginn, að sumir þeir menn, sem unnið höfðu að þessum breytingum, urðu brátt óánægðir og könnuðust við, að viss atriði í þessari nýju dómaskipun væru flaustursverk, sem óhjákvæmilegt væri að breyta.

Sá, sem einna fyrstur varð til þess að hreyfa breytingum á hæstaréttarlögunum, var séra Sigurður Stefánsson í Vigur, þó að þær næðu þá ekki fram að ganga. Næstur reið á vaðið Jón Magnússon, er fyrstur manna hafði unnið að undirbúningi málsins 1919. Hann bar fram á þingi 1924 nokkrar brtt., og fékk samþ. eftir harða mótstöðu þá breytingu, að dómendum í hæstarétti skyldi fækkað um tvo, og nokkrar fleiri breytingar voru gerðar, en flestar smávægilegar. Síðan hafa komið fram ýmsar breytingar og þær ræddar á þingi, en ekki náð samþ.

Þó að ég álíti fullkomlega eðlilegt að hraða því 1919 að flytja dómsvaldið inn í landið, þá sé ég ekki ástæðu fyrir okkur nú til að láta þann dómstól haldast óbreyttan, sem skapaður var í flýti fyrir 12 árum. Ég legg því áherzlu á, að hjá okkur, sem erum að byrja sjálfstætt þjóðlíf. verður ekki hjá því komizt að breyta þeim stofnunum, sem við höfum sett á fót. Í þeim efnum verðum við að læra af reynslunni, og þá er okkur ekki hvað sízt þörf að flytja inn reynslu annara þjóða, er okkur standa framar á flestum sviðum.

Þegar hæstiréttur var settur á stofn, var ekki reynt að flytja inn þekkingu eða reynslu frá nokkru öðru landi en Danmörku. Og var þetta því óheppilegra sem Danmörk er langt á eftir ýmsum öðrum löndum, t. d. Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, um alla sína dómaskipun. Hjá Dönum er um margfalt þunglamalegra form að ræða í þessum efnum heldur en þekkist í dómaskipun annara norrænna og enskumælandi þjóða. Þegar hinn danski hæstiréttur var tekinn til fyrirmyndar af löggjöfum okkar, var einnig eftir honum tekið að hafa leynilega atkvgr. um dómsúrslit í okkar æðsta rétti. Norðmenn höfðu einnig í upphafi leynda atkvgr., en hurfu brátt frá því.

Sem dæmi þess, hve rétt mál er fljótt að ná fylgi, skal ég geta þess, að þegar þetta frv. var fyrst borið fram í hv. Ed., mætti þetta atriði, um opinbera atkvgr. í réttinum, mikilli mótspyrnu, ekki aðeins í deildinni, heldur og hjá mörgum lögfræðingum þessa bæjar. En nú álíta flestir sömu menn þetta nauðsynlega breytingu, er sýnir, að skilningur manna hefir vaxið við umr. og athugun um málið.

Annað atriði, sem Danir hafa í sínum hæstaréttarlögum, og við höfum fengið lánað hjá heim, er það, að dómendur skipi sig að nokkru leyti sjálfir með dómaraprófi því, sem þar er fyrirskipað. Þetta atriði hafa ekki hinar Norðurlandaþjóðirnar. Norðmenn tóku það að vísu upp í fyrstu, en hurfu fljótt frá því, eins og með leynilegu atkvgr. Um þetta hefir verið talsverður skoðanamunur hjá okkur, en ég held að fari eins um þetta atriði og opinberu atkvgr., að það þyki sjálfsögð breyting, sem muni gera gott, er stundir líða.

Þá hefir mikið verið deilt um tölu dómenda, hvort þeir ættu að vera þrír, eins og nú er, eða fimm, eins og lögin um hæstarétt skipuðu fyrir í upphafi. Fyrsta röddin, sem til sín lét heyra um þetta efni, hafði það við hæstarétt að athuga, að hann væri okkur alltof dýr með fimm dómendum. Það er séra Sigurður í Vigur, enda byggði hann till. sínar á því, að spara mætti mikil útgjöld með því að láta prófessorana í lagadeild vera jafnframt dómendur í hæstarétti. Þetta gat að vísu verið mikill sparnaður, að hafa aðeins 3 í stað 8 embættismanna. Og auk þess gæti þetta verið æskilegt, ekki aðeins sparnaðarins vegna, heldur og hins, að það getur líka verið eftirsóknarvert í okkar fámenni, þar sem svo er ástatt, að flestir löglærðir menn verða að leita sér atvinnu öðruvísi en við fræðileg störf, en fáir hafa aðstöðu til að halda áfram fræðiiðkunum, sem margir gera í stærri löndunum. Þar er því ekki hörgull á hæfum mönnum til þess að skipa í slíkar stöður, en það gæti orðið hér í okkar fámenna landi. Úr þessu hefir verið reynt að bæta með þeim breytingum, sem frv. þetta ráðgerir. Þó hefir ekki þótt fært að sameina þetta alveg enda eru báðir aðilar, prófessorarnir og dómendur hæstaréttar, því mótfallnir. Eftir mig. lögum eru prófessorarnir varadómendur í hæstarétti. Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þegar dómendur hæstaréttar hafa fengið umfangsmikil mál til meðferðar, þá geti þeir kvatt tvö prófessora lagadeildar sér til aðstoðar. Þessari breytingu hafa menn yfirleitt tekið vel, enda eru margir lögfræðingar óánægðir með þá breytingu Jóns Magnússonar frá 1924, að dómendur í hæstarétti megi aldrei vera fleiri en þrír. Mörg mál hæstaréttar eru svo einföld, að ekki er þörf fyrir fleiri en þrjá dómendur. Með frv. er reynt að sameina báðar þessar skoðanir, að rétturinn geti stækkað sig sjálfur, þegar honum þykir þörf til þess, an þess að hafa nema þrjá fasta dómendur.

Þá eru í þessu frv. smávægilegar breytingar, er stefna í þá átt að víkka sviðið að því leyti, er viðkemur vali dómenda í réttinn. T. d. að lögfræðingar, sem sýnt hafa yfirburði í fræðmennsku og vísindaiðkunum, geti einnig komið til greina. er velja á menn í réttinn.

Þegar frv. þetta var fyrst borið fram, var mikið góðæri, og var þá gert ráð fyrir að hækka laun dómenda í réttinum, miðað við, að fastir dómendur yrðu aðeins þrír. En af skiljanlegum ástæðum hefir verið fallið frá því nú við undirbúning þessa frv. Þó skal játað, að eins og háttað hefir verið atvinnumöguleikum lögfræðinga hér í bæ, þá er margt fýsilegra en að gerast dómari í réttinum, með þeim launum, sem goldin eru fyrir það. En það hefir líka komið til tals við meðferð málsins í hv. Ed. á undanförnum árum, að dómendur réttarins ættu að eiga kost á ferðastyrk til þess að bregða sér utan og kynnast þeim stefnum, sem uppi eru í þessum málum í næstu löndum. Og mætti þá skoða slíkan ferðastyrk sem einskonar uppbót á laununum. Þó er ekki gert ráð fyrir neinu slíku í, því frv., er hér liggur fyrir, enda er það atriði, sem þingið getur bætt inn í, ef ástæða sýnist til.

Ég læt mér þá nægja þessi fáu orð í þetta sinn og legg til, að málið gangi að þessari umr. lokinni til hv. allshn.