03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3657)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jóhann Jósefsson:

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að ég væri allt í einu farinn að treysta stj., sem ekki væri vitanlegt, að ég hefði gert áður. Ég hefi áður skýrt frá því, með hvaða forsendum ég vil vísa þessu máli til stj. Það er til að Alþingi geti fengið það betur undirbúið en það er nú. Það er einnig til þess, að stj. sé ekki að skipa mþn. til að vinna það verk, sem ekki er annað séð en að hún geti unnið sjálf, eins og t. d. athugun á tollalöggjöfinni í sambandi við iðnaðinn. Þetta er verk, sem hvaða stj. sem er getur vel unnið sjálf.

Hv. þm. minntist á, að ég hefði á fundi iðnaðarmanna ek.ki alls fyrir löngu talað um, að þörf væri á að sinna málum þeirra. Þetta er rétt, og ég hefi sýnt lit á að gera það, en ég veit ekki til, að hv. 1. þm. Rang. hafi þar gert neitt. Bæði ég og aðrir, sem ekki standa að þessari till., hafa reynt að leysa nokkur af brýnustu áhugamálum þessara manna. Hv. 4. þm. Reykv. hefir flutt hér frv. um breyt. á l. um iðju og iðnað, og ég hefi flutt frv. um tollaívilnun á efnivöru til skipa- og bátasmíða. Ég hefi flutt till. í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna um, að innlendir skipa- og bátasmiðir sitji fyrir smíði á bátum, sem ríkið ábyrgðist greiðslu fyrir. Hv. þm. Ak. flytur frv. um eftirgjöf á tolli á efnivörum til iðnaðar. Þessum málum er lítið sinnt, en svo er komið með till. um að skipa eina allsherjar nefnd sem skuli gera eitthvað mikið og óendanlega margt einhverntíma, en ekkert nú þegar og starfa kauplaust. Það er þetta, sem við, sem viljum senda málið heim aftur, höfum átalið og álítum ekki rétt að samþykkja.

Þetta er þá munurinn á afstöðu okkar til þessa máls. Hv. 1. þm. Rang. vill fylgja hér till., sem er ekkert nema humbugsaðgerðir á merkilegu nauðsynjamáli, og er það undarlegt með svo reyndan og ráðsettan mann. Við aftur á móti, sem viljum vísa málinu til stj., teljum þetta mál of merkilegt til þess að rétt sé af Alþ. afgr. það eins og það liggur nú fyrir.