31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (3828)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Sveinn Ólafsson:

Hæstv. fjmrh. hefir tekið fram flest af því, sem ég vildi sagt hafa, og skal ég ekki tefja tímann með langri ræðu. Er ég honum sammála um það, að starf slíkra n., þótt 2 væru, myndi ekki bera mikinn árangur það sem eftir er þings að þessu sinni. Er ég ráðh. líka sammála um það, að ef árangurs má vænta af starfi n., þá sé helzt við honum að búast að þingi loknu. Að skipa sína n. í hvorri d. á sama tíma og með sama verkefni getur tæplega átt við eins og nú horfir.

Fyrirfram verður ekki séð, hvaða árangur má verða af slíkri n.skipun, en mér virðist, ef vel verður til n. vandað, sem búast megi við eins góðum bendingum frá 3 mönnum eins og þótt fleiri væru. Vil ég ekki tefja tímann með því að ræða þetta frekar, enda finnst mér bezt fara á því, að till. þessi verði jörðuð hér í heimareiti, með hæfilegri viðhöfn þó, og væri þá vel við eigandi að vísa henni til stj. Vil ég því leyfa mér að bera fram svofellda rökst. dagskrá:

Þar sem Ed. hefir í dag samþ. skipun n. til þess að gera till, um niðurfærslu á útgjöldum ríkisins, telur d. ekki þörf fleiri samskonar n. og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.