29.02.1932
Efri deild: 16. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í D-deild Alþingistíðinda. (3876)

29. mál, fávitahæli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég er samdóma hv. flm. um það, að þessi till. sé orð í tíma talað. Hinu býst ég samt við, að hvorki hv. flm. eða hv. þd. séu svo bjartsýn nú, að þeim virðist hægt að gera ráð fyrir framkvæmdum af þessu tægi nú í bili.

Þetta mál þarf vitanlega sinn umhugsunartíma eins og önnur mál, og það þykist ég vita, að vaki fyrir hv. flm. Málið þarf að fara til heilbrigðisstj. og rannsakast þar, svo að ekki þurfi að standa á undirbúningi þess, þegar Alþingi sér fært að hefjast handa til framkvæmda.

Þó að málið sé nú á þessu frumstigi, þá teldi ég samt bót í því, að hv. flm. vildi nánar gera grein fyrir, hvernig hann hugsar sér þessu fyrir komið, og sömuleiðis hvort hann álítur, að þessi till. öðlist lagagildi, ef hún er samþ. með tveim umræðum í báðum þd., eða hvort hann gerir ráð fyrir, að ekki verði lagt í kostnað fyrr en fé er veitt til þess í fjárlögum.

Svo er annað stórt atriði í þessu máli, og það er rekstrarkostnaðurinn og hvernig hv. flm. hugsar sér, að honum verði fyrir komið, hvort hann álítur, að aðstandendur fávita muni yfirleitt geta borgað fyrir þá á fávitahæli, ef það kæmist upp, eða hvort búast megi við, að kostnaðurinn lendi á sveitarfélögunum eða ríkinu. Ég veit, að hv. flm. getur sagt sem svo, að þetta viti enginn með vissu, en ég álít, að við þetta mál verði ekki hætt fyrr en það kemst í framkvæmd, og þá er rétt að gera sér grein fyrir rekstrarkostnaðinum þegar frá byrjun.

Þetta hefir ekki verið gert við aðrar svipaðar stofnanir, t. d. landsspítalann. Um hann eru engin lög til nema byggingarlögin, svo að það er undir fyrirkomulaginu komið, hve mikill tekjuhalli verður á honum. Sama er að segja um Nýja-Klepp. Um rekstur hans er ekkert fyrirskipað af Alþingi. Afleiðingin er því sú, að það verður fyrirkomulagsatriði, hvort kostnaðurinn lendir á ríkissjóði, sveitarsjóðum eða aðstandendum sjúklinga.

Ég vil þess vegna óska þess, að hv. flm. skýri frá sinni persónulegu skoðun um þessi tvö kostnaðaratriði. Annars er ég hv. flm. fyllilega samdóma um það, að það er ákaflega mikið mein fyrir á annað hundrað heimili hér á landi, að engin stofnun er til, sem getur tekið á móti fábjánum. Hinsvegar verður það að vera öllum ljóst, að þótt holdsveikraspítalinn væri tekinn handa þessum sjúklingum, þá hlýtur mikill kostnaður að verða í sambandi við þessi tvö fjárhagsatriði.

Það geta sjálfsagt allir hv. þm. komið með dæmi þess, eins og hv. flm. gerði, að fávitar eru algerð eyðilegging á því heimili, þar sem þeir eru. En hv. flm. verður líka að viðurkenna, að það er vaxandi vandi fyrir þjóðfélagið, hve mikið hleðst á það af slíkum skyldum sem þessum. Allir vita, hvað mikill kostnaður er í sambandi við berklavarnalögin, og menn vita, hvað geðveikrahælið kostar. Með þeirri nýju byggingu, sem reist var á Kleppi, var séð fyrir þeim, sem mest þörf var að sjá fyrir. En nú er þar svo fullt, að það er mikil nauðsyn að bæta þar við byggingu fyrir þá menn, sem veikastir eru, en hafa ekki enn getað komizt þarna að fyrir húsnæðisleysi, og verður ef til vill talað um það mál á þessu þingi.

Þá kemur nýr liður vegna kynsjúkdóma, sem lítur út fyrir, að hafi mjög aukinn kostnað í för með sér. Sú blika virðist vera mjög alvarleg, sem þar dregur upp, vegna þess að þessi sjúkdómur er að færast í aukana og þá um leið kostnaðurinn.

Þetta allt dregur þó á engan hátt úr rökum hv. flm., það aðeins undirstrikar það, að ekki er nóg, þó að samþ.till. um þetta og jafnvel lög. Það verður í hverju tilfelli, þegar stofnað er til mikils kostnaðar, að gera sér fulla grein fyrir, hvernig á að bera hann.

Ég mun með mestu ánægju greiða þessari till. atkvæði, og ég vona, að hv. flm. sé mér sammála um það, að í bili sé ekki annað hægt að gera í þessu máli en að rannsaka, en sú rannsókn sé nauðsynleg.