07.05.1932
Neðri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (3951)

448. mál, fækkun opinberra starfsmanna

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Mér þykir verst, að hv. þm. Dal. fer undir eins úr d., því að ég þurfti eiginlega engum öðrum að svara. (JónasÞ: Ég skal hlusta á hv. þm). Ég skal með ánægju verða við því að leita upplýsinga hjá hv. þm. Dal. viðvíkjandi útvarpinu, en satt að segja fannst mér hann vera að berjast við skuggann sinn í þessu efni, því að ég nefndi sparnaðarfyrirætlanir útvarpsins einungis í viðurkenningarskyni. Ef hann hefir tekið það í niðrandi merkingu, þá hefir hann alveg misskilið mig. Það má vel vera, að það sé afsakanlegt, að eigi hefir verið gætt hins ýtrasta sparnaðar áður, en það sýnir, að það er rétt, sem ég sagði þar um, sem sé að meira mætti spara en gert hefir verið. Ég hefi alls ekki kvartað um, að ekki hafi komið upplýsingar frá hv. þm. viðvíkjandi útvarpinu. Þegar hann talar um, að það sé ekki „fair play“ að gefa hér upplýsingar án þess fyrirfram að hafa fengið leyfi hjá honum, þá vil ég segja, að ég hélt, að ekki þyrfti leyfi til að hæla útvarpinu. (JónasÞ: Ekki leyfi, en upplýsingar). En ég var bara að hæla því, en hér eftir skal ég aldrei hæla útvarpinu að ófengnu leyfi. Og þó ætla ég að brjóta þetta strax og taka það fram viðvíkjandi viðgerðarstofunni, að mér hefir reynzt hún mjög vel, og margir myndu sakna hennar, ef hún legðist niður. En þó verður að gera það, ef hún er rekin með mjög miklum halla.

Annars er þessi till. ekki borin fram út af útvarpinu og óþarfi að blanda því hér inn í. Hvað launum Eimskipafélagsforstjórans viðvíkur, þá hefir hann sjálfur sagt, að sér verði ekkert meira úr sínum launum hér en þeim, sem hann hafði áður hjá Sambandinu. — En hvað snertir, að till. sé óþörf, þar sem stj. sé þegar byrjuð að spara og muni halda því áfram, þá get ég sagt hv. þm. Dal. það, að stj. var víst byrjuð að spara, þegar þessi till. var rædd í fjvn., en þá taldi hv. þm. sjálfsagt að samþ. hana, og að það væri beinlínis gott fyrir stjórnina og stjórnarflokkinn að fá hana samþ. En nú vill hann játa vísa till. til stj., en ég geri mikinn mun á því, hvort till. er vísað til stj. eða hvort skorað er á hana að gera það, sem í till. stendur. Ég lít svo á, að með því að vísa till. til stj. sé tekið of laust á málinu.