20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

5. mál, verðtollur

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hefi tekið það tillit, að játa þetta mál ekki koma á dagskrá fyrr en stjórnarskrárbreytingin væri komin til Nd. Skal ég ekki telja það óeðlilegt, að þessi mál séu sett í samband hvort við annað, þótt lítið raunverulegt samband sé á milli þeirra. Það er um þetta, eins og þegar sagt er á óróatímum: „Ef þú vilt ekki vera minn bróðir í einhverju, skal ég drepa þig“. Hefir þetta oft gengið svo. En að hægt sé að vera án þessa tolls, eins og hv. 2. landsk. heldur fram því að hann ætlar að greiða atkv. á móti honum, er fjarstæða ein, enda veit hann það sjálfur. Ég veit ekki, hvernig flokkur hans ætlar að fullnægja þeim kröfum, sem hann hefir gert til þess opinbera, ef fella á þennan toll. Það veit hv. 2. landsk. ekki heldur. Hver á að taka á sig ábyrgðina af því að samþykkja hann, fer eftir hinni pólitísku ábyrgð. Þeir, sem lifa vilja í ábyrgðarleysi, geta gengið á móti. Ef þess er þörf að jafna einhvern ákveðinn rétt í landinu, þá er ekki siður þörf á því að gefa mönnum réttari upplýsingar en stundum hefir gert verið af flokkum þeim, sem um völdin berjast. Ein þessara réttu upplýsinga er sú, að slíkur tollur verði að haldast. Ef hv. 2. landsk. ætlar að gefa kjósendum rangar upplýsingar, sé ég ekki ástæðu til þess fyrir hann að vera að halda fremur í aðrar réttlætiskröfur. En hann um það.