13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í C-deild Alþingistíðinda. (4045)

70. mál, ábúðarlög

Magnús Guðmundsson:

Ég stend ekki upp til þess að andmæla hv. frsm. landbn., heldur til þess aðallega að undirstrika það, að ég held, að milli okkar, sem höfum undirskrifað nál. með fyrirvara, og hinna, er undirskrifað hafa fyrirvaralaust, við ekki mjög mikill ágreiningur. Ég held satt að segja, að í n. hafi verið samkomulag um það, að mál þetta sé tæplega nægilega hugsað og undirbúið. Það hefir verið svo, að fyrir landbn. hefir legið fjöldi mála og hafa mörg þeirra verið mjög vandasöm og merkileg, svo að n. hefir þurft að leggja í þau mikla vinnu. Af þessu leiddi það, að n. var ekki hægt að sinna þessu merkilega máli fyrr en alllangt var liðið á þingtímann, og því held ég, að það sé ekki svo gagnrýnt og skoðað sem þörf er á.

Það er eitt sérstaklega, sem ég er ekki ánægður með í frv., en það er 45. gr. Ég skil ekki annað en n., ef hún tekur frv. aftur til meðferðar, geti orðið sammala um að fella þessa grein blátt áfram niður. Eins og hv. dm. vita, er í þessari gr. tekið fram, að landsdrottinn skuli hafa rétt til að bjóða leiguliða ábúðarjörð hans til kaups með fasteignamasverði, að viðbættu virðingarverði þeirra umbóta á jörðinni, er jarðeigandi á, og gerðar hafa verið eftir að síðasta fasteignamat fór fram, enda er gefinn ákveðinn gjaldfrestur á veði jarðarinnar, en vilji leiguliði ekki kaupa jörðina, hefir hann samkv. þessari gr. fyrirgert sínum ábúðarrétti. Þetta tel ég algerlega óhafandi ákvæði. Ég hefi hent á þetta áður hér á þingi annaðhvort í fyrra eða hitteðfyrra, að hér getur verið um herfilegt ranglæti að ræða, því þetta ákvæði getur blátt áfram orðið til þess að reka leiguliða af sinni ábúðarjörð, og er það ekki lítið tilfinnanlegt. sérstaklega þegar um lífstíðarábúð er að ræða, sem oftast mundi vera í þeim tilfellum, er þessi grein væri látin koma til framkvæmda, auk þess sem það er alls ekki víst, að leiguliði kæri sig um að kaupa ábúðarjörð sína, gæti hæglega staðið á því, að hann skorti möguleika til að greiða verð hennar á tilsettum tíma. Auk þess verður að álítast rétt, að samningar, sem gerðir eru milli landsdrottna og leiguliða, verði að standa. Þá skoðun hefir n. líka gengið inn á; sýna brtt. hennar við 57. gr.

Þó að n. hafi ekki gert fleiri brtt. en raun er á, þá er það með engu móti víst, að frv. sé nú þannig úr garði gert, að ýmsir gallar geti ekki á því verið, og því ekki svo prýðilega frá gengið sem þyrfti að vera um svo þýðingarmikil og þörf lög og þessi, bæði hvað snertir orðalag og hugsun. Þetta er alveg eðlilegt, þar sem n. hefir ekki haft nægan tíma til að sinna málinu. Annars skal ég taka það fram, að ég er yfirleitt samþykkur n. um brtt. hennar. Samt hefði ég t. d. kosið, að 1. gr. væri öðruvísi orðuð. Þar er sagt, að jörð heiti það sveitabýli, sem sérstaklega er metið til verðs samkv. fasteignamatsbók. Af þessu leiðir, að nýtt býli, sem myndast á tímabilinu milli jarðamata, getur ekki talizt jörð, af því það er ekki í jarðamatsbók. Þetta er óhentugt. en má laga með lítilfjörlegri brtt. Ýmsir fleiri gallar eru á frv., og stafa þeir af því, að landbn. hefir lítinn tíma getað lagt í athugun þessa frv. Þeir, sem eru svo samvizkusamir að sitja hér í hv. þd. allan þann tíma, sem fundir eru á degi hverjum, hafa lítinn tíma aflögu til nefndarstarfa, nema sjálfa nefndarfundatímana, en þeir eru ekki hentugir til nákvæmrar gagnrýni.

Ég hefi rekið mig á tvær prentvillur í síðustu gr. í brtt. n. Þar stendur: Við 55 gr., á að vera við 58. gr., og ennfremur er skakkt vitnað í ártal, á að vera 1884 en er 1887. (StgrS: Þetta er rétt, ég hefi orðið var við þessar prentvillur). Þá vil ég víkja með fáeinum orðum að brtt. n. við 12. gr. frv. Í brtt. er í fyrsta sinn gert ráð fyrir, að í lögum verði talað um svo nefnda leiguliðabót, er leiguliði borgar landsdrottni og koma á í stað fyrningar. Ég tel hugmyndina um leiguliðabót rétta, en lít svo á, að það sé ekki rétt að geyma uppbót þessa að helmingi hjá leiguliða og að helmingi hjá landsdrottni, heldur eigi hún að geymast í sértstökum sjóði. Ég vil fara þá leið að láta leiguliða og landsdrottin árlega leggja nokkra upphæð í sjóð, sem svo verði varið til að endurbyggja hús jarðarinnar, þegar þörf krefur. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að eitt mesta böl landbúnaðarins hefir verið það, hve illa jarðirnar hafa verið húsaðar. Það hafa nú á síðari árum ýmsar tilraunir verið gerðar til þess að ráða þó á þessu, en engin tilraun hefir verið gerð, er segja megi, að nái til allra jarða eða meginhluta þeirra. Verði hægt að finna ráð, er kæmi aðhaldi flestum jörðum í framtíðinni til bóta í þessu efni, væri stórvirki unnið í þágu landbúnaðarins. Ég veit, að fyrst um sinn yrði slíkur sjóður, sem ég hefi nefnt, lítill og kæmi því fyrst að verulegum notum eftir nokkurn tíma. Ég skal viðurkenna, að ýms nánari ákvæði þarf um þetta, og er ég ekki undir það búinn að skýra hugmyndina nægilega vandlega við þessa umr. Ég hreyfði þessari hugmynd í landbn. og varð ekki var við annað en að henni væri vel tekið.

Út af 5. gr. brtt. tel ég skylt að benda á það, að með því að skylda landsdrottinn til að láta eignarjörð sinni, er hann leigir til ábúðar, fylgja nauðsynleg húsakynni, er ríkissjóði bundinn nokkur baggi, en ég sé ekki, að hægt sé að komast hjá því. Það er auðvitað ekki hægt að láta ríkissjóð vera verri landsdrottin en aðra, og þá skyldu, sem Alþingi telur þörf að leggja á einstaka menn, verður það einnig að leggja á ríkissjóðinn, meðan hann á jarðir.

Í brtt. við 23. gr. frv. er lagt til, að öll jarðarafnot hverrar jarðar skuli fylgja jörðinni eða jarðarhluta. Ég skil þetta svo, að leiguliði eigi kröfu á því, að þetta allt fylgi, en ef hann kærir sig ekki um afnot allra jarðarnytjanna, þá sé samningafrelsi um þetta atriði. Í þessu máli vildi ég aðallega hafa sagt, að það sýnist hafa dregið svo saman um ágreiningsatriði, að lítið annað sé eftir við frv. að gera en að hefla það, laga og samræma ákvæði þess. En ég tel það ekki enn nægilega heflað til þess að það geti orðið að lögum á þessu þingi.

Ef frv. fer til 3. umr., mun ég, ef mér vinnst tími til, yfirfara það enn á ný, og býst ég við, að minn fyrirvara sé réttast að skilja í sambandi við þær brtt., sem ég þá kann fram að bera við frv. til viðbótar brtt. n. á þskj. 680.