13.05.1932
Neðri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1072 í C-deild Alþingistíðinda. (4052)

70. mál, ábúðarlög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja viðvíkjandi þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar síðan ég talaði síðast.

Hv. 2. þm. Reykv. byrjaði mál sitt með því að segja, að þætti e. t. v. óeðlilegt, að hann sem bæjarbúi og þm. Reykjavíkur færi að tala í þessu mali, sem nær einungis skipti sveitirnar. Það er langt frá því, að mér þyki slíkt óeðlilegt að nokkru leyti. Ég veit, að það er styrkur fyrir þetta mál sem önnur, að jafn þaulæfður lögfræðingur og skarpur maður og hv. 2. þm. Reykv. leggi sitt til að gera frv. vel úr garði. En í þessu sambandi vil ég nefna það, að mér virtust hans aðfinnslur við frv. ekki vera það stórvægilegar, að í raun og veru sé hægt að segja, að hann hafi mjög mikið út á það að setja.

Hv. þm. gerði dálitla aths. við 2. brtt. n. Honum fannst það óeðlileg og óþörf skriffinnska, að leita þurfi álits Búnaðarfél. Íslands eða fá samþykki þess til þess að sameina jarðir og til þess að sami maður geti fengið að hafa ábúð á fleiri en einni jörð. Fannst honum nóg, að úttektarmennirnir dæmdu um þetta. Meining n. var líka sú, að úttektarmennirnir, sem kunnugir eru á hverjum stað, segi álit sitt um þessa hluti, en n. álitur, að tryggara sé, að annar aðili hafi þó æðsta úrskurðarvald og virðist Búnaðarfél. Íslands sjálfkjörið til þess.

Ég held, að það verði svo sjaldgæft, að ástæða sé til að sameina jarðir, eða sem farið verður fram á, að sami maður fái að hafa ábúð, á fleiri en einni jörð, að það valdi ekki neinum óeðlilegum erfiðleikum, þó að til Búnaðarfél. þurfi að leita. Fyrir mér vakir, að það sé gott að hafa annað vald yfir úttektarmönnunum til þess að skapa samræmi í þessum aðgerðum; hindra það, að úttektarmenn í einni sveit gangi mikið lengra en annarsstaðar er gert í því að leyfa sameiningu jarða. Ég geri ráð fyrir, að í flestum tilfellum fari Búnaðarfél. eftir till. úttektarmannanna um að veita þessi leyfi, en ef vart verður við, að einhverjir úttektarmenn gangi lengra í því heldur en almennt gerist, virðist eðlilegt, að Búnaðarfél. athugi, hvernig á því stendur, og taki í taumana, ef úttektarmennirnir brjóta í bága við það, sem almennt er talið byggilegt í þessu efni.

Um 3. atr. gr., að leita skuli samþykkis Búnaðarfél. um hvernig því skuli fyrir komið, ef landeigandi vill skipta jörð sinni, skal ég játa, að óheppilega er að orði komizt. Ég held, að það væri heppilegra að hafa þar „umsagnar“ í stað „samþykkis“. Meiningin var, að álit sérfróðra manna kæmi til um hvernig skiptingin getur orðið sem haganlegust, en ekki hitt, að binda hendur landeiganda í þessu efni. Það er tekniska hliðin á málinu, sem hér kemur til greina og Búnaðarfél. á að hafa nógum á að skipa til að veita leiðbeiningar í því efni.

Greinin mundi því betur innifela það, sem fyrir okkur nm. vakti, ef í stað „samþykkis“ kæmi ,.umsagnar“. Eins og till. er orðuð, getur litið þannig út, að Búnaðarfél. geti beinlínis bannað mönnum að skipta jörðum sínum, en það er vitanlega ekki meiningin.

Þá talaði hv. 2. þm. Reykv. töluvert um 9. gr. frv. og hafði allmikið við hana að athuga. Ég skal játa, að ég hafði enga hugmynd um það, fyrr en hv. þm. kom með sínar nákvæmu skýringar, á hversu margan hátt má á það líta, þegar sagt er, að kona hafi aðskilinn fjárhag við mann sinn. En vitanlega mætti bæta úr þessu með því að segja „fullkomlega aðskilinn fjárhag“ eða eitthvað slíkt. Annars er hér ekki um svo stórt atr. að ræða, að ég gerði það að nokkru ágreiningsatr., þó að menn vildu fella það niður. Og lögskýringar hv. 2. þm. Reykv. dettur mér vitanlega ekki í hug að rengja.

Þá fannst hv. þm., að þar sem talað er um, handa hverjum má taka jörð úr ábúð, þyrfti að taka kjörbörn með. Ég leit svo á, að kjörbörn og fósturbörn væri yfirleitt það sama. Þó skal ég ekki segja, að svo sé í öllum tilfellum, og vitanlega spillti það engu, þó kjörbörn væru tekin þarna með upptalninguna.

Einnig minntist hv. þm. á, hvernig ætti að skilja það, þar sem talað er um, að jarðareigandi verði að afhenda jörðina til „eignar og ábúðar“, ef hann tekur hana úr ábúð. Ég býst við, að þetta verði að skilja svo, að um leið og jarðareigandinn tekur jörðina úr ábúð handa barni sínu eða öðrum nákomnum, verði hann að afhenda hana til fullrar eignar þeim, sem tekur hana til ábúðar. Ef skilja ætti þetta öðruvísi, þyrfti að segja til „eignar eða ábúðar“.

Hv. þm. fannst óeðlilegt, að ekki mætti byggja jarðir til skemmri tíma en lífstíðar. Ég hefi áður tekið það fram, að ég lít svo á, að ef farið er að gera undantekningar frá þessu ákvæði á annað borð, þá yrði það til þess, að hægt yrði að fara í kringum það fyrir þá, sem það vilja viðhafa, og er ákvæðið þá um leið orðið gagnslaust. Ég lít svo á, að í frv. sé fyllilega séð fyrir öllum þeim tilfellum, þar sem nauðsyn krefur, að jörð sé tekin úr ábúð. Ég sé ekki ástæðu til að landsdrottinn fái að taka jörð af ábúanda nema handa sjálfum sér eða sínum allra nánustu, og legg því mikla áherzlu á, að ekki sé ennþá linað á ákvæðum frv. hvað þetta snertir.

Þá talaði hv. þm. nokkuð um 45. gr., sem fjallar um skyldu leiguliða að kaupa ábýlisjörð sína. Fannst honum þar hallað á landsetana. Það er rétt hjá hv. þm., að ef fátækur maður á í hlut, þá getur hann misst ábúðararrétt sinn vegna þess, að hann geti ekki innleyst jörðina eða greitt hana á tilsettum tíma. En ég lít svo á, að þegar um lífstíðarábúð er að ræða, væri óforsvaranlegt að gefa ekki landsdrottnum einhverskonar möguleika til þess að losna við jarðir sínar, þegar þeir þurfa á því að halda. Einnig drap hv. þm. á, að í þessu sambandi væri ekki réttlátt að miða verð jarðarinnar alltaf við fasteignamatið, því að ef jarðir héldu á fram að lækka í verði, gæti farið svo, að þær færu niður fyrir fasteignamatsverð. Þetta er að vísu hugsanlegt, en reynslan, sem fengizt hefir, sýnir, að hitt er miklu algengara, að fasteignamatið sé talsvert lægra heldur en gangverð jarðanna, og mætti út frá því segja, að frekar væri hallað á landsdrottnana með því, að miða við það. En ég lít svo á, að fasteignamatið eigi að framkvæma þannig, að það sé sem sanngjarnast söluverð, og þess vegna sé rétt að binda sig við það í þessu tilfelli. En það er vitanlega með það sem önnur slík möt, að það er ekki í öllum tilfellum hið rétta, sem næst þannig.

Þá nefndi hv. 2. þm. Reykv. 26. gr., þar sem ákveðið er, að leiguliðar greið skatta og skyldur af leigujörð sinni og minntist á eignarskattinn í því sambandi. Mér datt nú satt að segja ekki í hug, að eignarskattur gæti komið þarna undir. Það er vitanlegt, að þetta ákvæði hefir verið í lögum, og mun samt engum hafa komið í hug að krefja leiguliða um eignarskatt af ábúðarjörðum þeirra. Um hitt má aftur tala, hvort réttlátt sé, að leiguliðar greiði yfirleitt skatta og skyldur af leigujörðum sínum, t. d. fasteignaskatt. Eftir þeirri venju, sem ríkir í kaupstöðum um greiðslu fasteignaskatts er það ekki rétt, og ég mundi geta fallizt á að breyta þessu ákvæði. En þá yrðu jarðeigendur auðvitað að taka hærri leigu, svo að hér er að nokkru leyti aðeins um formsatr. að ræða. Ég geri því ekki svo mikið úr því, hvor leiðin verður farin.

Þá vék hv. þm. að ákvæðum 34. gr. og taldi óeðlilegt, að leiguliðar bæru að nokkru leyti ábyrgðina á því, ef jörð rýrnar af völdum náttúrunnar. Þetta er að vísu ekki í samræmi við það, sem gildir um aðrar eignir. En mér virðist hér gegna nokkru öðru máli. Ef gengið er út frá lífstíðarábúð þá er ekkert athugavert við það, þó að leiguliði beri þessa ábyrgð að nokkru. Ég sé því ekki ástæðu til að breyta þessu ákvæði. — ég held, að ég hafi nú drepið á flestar aths. hv. 2. þm. Reykv.

Út af ræðu hv. þm. Borgf. þarf ég lítið að segja. Hann sagði, að það hefði verið samkomulag um það í n. að láta málið ekki ganga fram á þessu þingi. Ég vil ekki kannast við, að rétta sé rétt. En n. bjóst ekki við, að það ynnist tími til að afgreiða málið á þessu þingi. Við gerðum þá ráð fyrir, að þingi yrði slitið nú um hvítasunnuna. En ef þing situr nú í nokkrar vikur enn, sé ég enga ástæðu til annars en að vinna að þessu máli sem öðrum og koma því áfram. Og ég hefi styrkzt í þessari skoðun minni við umr., því þótt ýmsar aths. hafi verið gerðar við frv., þá eru engar svo stórvægilegar, að ekki megi laga frv. og koma því gegnum þingið, ef það situr nokkuð lengur. Hitt dylst mér ekki, að það er mjög mikilsvert, þótt frv. nái ekki fram að ganga nú, að það hefir komið til umr., því ýmsar mikilsverðar bendingar hafa komið fram og málið allt skýrzt.

Annars skal ég ekki lengja umr. um skör fram og læt því staðar numið að sinni.