19.05.1932
Neðri deild: 78. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í C-deild Alþingistíðinda. (4070)

70. mál, ábúðarlög

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Í 12. gr. frv. er gert ráð fyrir, að leiguliði eigi að borga 1–2% af verði jarðarhúsanna, sem falli í þennan sjóð, og geri ég ráð fyrir, að það sé það, sem talið er hæfilegt fyrningargjald, en eigi svo að bætast við önnur eins upphæð, þá sýnist mér, að gjald þetta sé óþarflega hátt, a. m. k. þar sem góðar og dýrar byggingar eru, og því hart að skylda jarðeiganda til þess að festa fé sitt þannig. (MG: Þetta er hámark gjaldsins). Ég veit það, en ég hefi hvergi séð, eftir hvaða reglum eigi að ákveða gjaldið. Ef það eru úttektarmennirnir, sem eiga að ákveða fyrningargjaldið, þá ákveða þeir eðlilega raunverulega fyrningu og það á leiguliði að borga. En þá bætist við, samkv. brtt. hv. 1. þm. N.M., annað eins, en þá skilst mér, að sjóðurinn verði aukinn fram yfir það, sem nauðsynlegt er til viðhalds og aukningu húsanna. Mér finnst ekki nema eðlilegt, að ábúandi borgi fyrningu húsanna. Hann notar húsin og á því að borga hana.