29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í C-deild Alþingistíðinda. (4214)

142. mál, skemmtunarskattur og þjóðleikhús

Flm. (Bergur Jónsson):

Mér virtist hæstv. forseti og hv. dm. sýna síðustu orðum hv. 3. þm. Reykv. hæfilega lítilsvirðingu, og er því að nokkru leyti óþarft fyrir mig að taka til máls. Ég mótmæli því harðlega, að ég hafi nokkurntíma mætt hér í þinginu öðruvísi en allsgáður. Ummæli hv. þm. um mig eru því uppspuni einn, sem engum er samboðinn nema honum sjálfum, enda syndi það sig áðan, hve þessi ósvífni hneykslaði hv. dm. Annars kemur það úr hörðustu átt, að þessi hv. þm. skuli vera að tala um ölvun annara manna, maður, sem eftir allri framkomu sinni í þingsalnum virðist helzt aldrei vera allsgáður. Má þar til nefna framkomu hans 14. apríl síðastl., þegar hann að sögn, eftir mikinn bægslagang, óð að hv. þm. G.-K., tók í hönd hans og afhenti honum Alþýðufl. með húð og hári. Það hefði verið til afsökunar fyrir framkomu hans þá, ef hann hefði verið drukkinn.

Hvað snertir frv. það, sem hér er til umr., þá virðist mér nú svo komið, að meira sé deilt um formsefni en stefnuatriði, og því sé óþarft að halda lengur áfram umr. um það. En mér finnst útlitið um fjárhagsafkomu ríkissjóðs svo alvarlegt, að öllum hv. þm. beri skylda til að taka tillit til allra þeirra möguleika, sem fyrir hendi eru, til þess að afla honum tekna. Annars þýðir ekki fyrir hv. 3. þm. Reykv. að vera að ásaka stj. fyrir ógætilega fjármálastj., þar sem hann sjálfur stóð við hlið hennar árið 1930, einmitt það árið, sem hún er mest ásökuð um eyðslu.