29.03.1932
Neðri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í C-deild Alþingistíðinda. (4215)

142. mál, skemmtunarskattur og þjóðleikhús

Héðinn Valdimarsson:

Það lítur ekki út fyrir, að hv. þm. Barð. hafi fylgzt vel með stj. fjármálanna áður en hann kom á þing. Við Alþýðuflokksmenn höfum alls ekki verið að finna að því, hvernig þeim fjárveitingum hefir verið varið, sem í fjárl. hafa staðið, en við höfum aðallega verið óánægðir með eyðslu stj. fyrir utan fjárl., og því höfum við komið á undanförnum þingum með frv. um jöfnunarsjóði o. fl.

Hafi hv. þm. Barð, séð atburði þá, er gerðust hér 14. apríl síðastl., á þann hatt, er hann lýsti þeim, að ég hafi tekið í hönd hv. þm. G.-K., eins og Tíminn hefir líka sagt, og að ég hafi afhent honum Alþýðufl. með húð og hári, munu nokkrar þúsundir Reykvíkinga með fullum rétti segja, að hann hafi þá einnig séð tvöfalt, en sennilega hleypur hann með þessa lygasögu eftir einhverjum, sem ekki hefir verið þar allsgáður.