19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í C-deild Alþingistíðinda. (4241)

149. mál, verðhækkunarskattur

Magnús Guðmundsson:

Við fyrri hluta þessarar umr. sagði hv. 1. þm. N.-M. út af því, sem ég hafði látið um mælt, að ég líti svo á, að öll verðhækkun ætti að vera skattlaus hvernig sv6 sem hún væri til komin. Þetta vil ég leiðrétta, því að þetta er alls ekki mín skoðun og þetta sagði ég ekki. En ég sé svo mikil vandkvæði á að greina milli þeirrar verðhækkunar, sem eigi að vera skattskyld, og þeirrar, sem ekki á að vera það, eða er í raun og veru ekki verðhækkun, að ég get ekki fylgt þessu frv. Ég skal játa, að mér hefir ekki dottið í hug nokkur sanngjörn lausn á þessu máli, og ég held helzt, að hún sé ekki til. Verði þetta frv. að lögum, verður margt skattað, sem í rauninni er engin verðhækkun.

Ég tók svo eftir, að hv. aðalflm. segði við fyrri hl. umr., að hann sæi ekkert á móti því, að ekki væri tekinn verðhækkunarskattur þegar um sölu á milli skyldmenna væri að ræða. Ég er hræddur um, að lítið verði úr þessu frv., ef slíkar sölur eiga að vera skattfrjálsar. Ég vil gjarnan fá skýringu á því hjá hv. flm., hvað eigi að teljast sölur milli skyldmenna, og hvort þær eigi alltaf að vera skattfrjálsar, þótt vitanlegt sé, að eignin hafi hækkað stórkostlega í verði. Því að þótt foreldrar finni upp á því að selja barni sínu með lágu verði sér að útlátalausu, getur eignin samt hafa hækkað mjög í verði.