08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, fjárlög 1933

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

ég tel ekki ástæðu til að segja margt um till. hv. fjvn. Ég er flestum niðurfærslum þeirra samþykkur og vona, að þær nái samþykki. Að vísu eru það nokkrar hinar smærri niðurfærslur, sem ég get ekki verið alveg sammála um, þar á meðal er t. d. styrkurinn til Sögufélagsins, sem n. leggur til, að falli niður. Mér sýnist tæplega fært að taka styrkinn allan af þessu félagi, þegar Bókmenntafélag Íslands og fleiri samskonar félög fá að halda sínum styrkjum að nokkru. Ég efast um það, að hægt verði að færa niður greiðslu til aukakennslu við Háskóla Íslands meir en um 20%, eins og ég lagði til í frv. Ég ætla nú ekki að fjölyrða um hin smærri atriði í brtt. n., því að um þau er ég yfirleitt sammála n. Við samningu fjárlagafrv. reyndi ég yfirleitt að taka tillit til þeirra heimilda, sem felast í gildandi lögum um greiðslur úr ríkissjóði, en náttúrlega er þar ekki tekið tillit til þeirra útgjalda, sem á þessu þingi kunna að verða samþ. á hendur ríkissjóði, og fyrir þeim gjöldum er vitanlega ekki hægt að áætla að svo stöddu nema út í bláinn. Um tekjuáætlun n. ætla ég ekki að deila, en ég hygg, að mín áætlun bregðist ekki, og því sé ekki þörf á að lækka tekjuliðina, eins og n. hefir gert. Ég hygg, að útflutningsgjöld muni ekki lækka á næsta ári, þó að á þessu ári séu þau lægri en áður hafa verið. Um vörutoll og verðtoll má að sjálfsögðu lengi deila, hvort verða muni 100–200 þús. kr. hærri eða lægri, en á þessu ári munu þessir tollar að sjálfsögðu verða mikið lægri en gert er ráð fyrir í till. n., en frv. er byggt á því, að betur gangi á næsta ári en á því yfirstandandi. En ég tel ekki ástæðu til þess að gera ágreining út af þessu, úr því að n. er öll sammála um þessar lækkunartill. þó tel ég rétt að fella fyrstu till. n. Hingað til hefir það oftast farið svo, að tekjuskattur hefir reynzt meiri en áætlað var, en tillit hefir venjulega ekki verið tekið til þess við samningu fjarlaga eins og hægt hefði verið. Nú er það óheppilegt að áætla tekjur mikið lægri en líkur eru fyrir, að þær reynist. Hefi ég því í frv. farið nokkuð hærra en vant er með áætlun tekna og áætlað með tilliti til reynslu undanfarinna ara og gengið jafnframt út frá, að næsta ár verði áþekkt tekjuár og síðastliðið ár reyndist. Hinsvegar skal ég fúslega viðurkenna, að ég þori ekki að fullyrða, að áætlanir mínar um þessa tekjuliði reynist réttar. Meðan þeirri reglu er fylgt, sem nú gildir, að fjárlög eru samin rúmlega ári áður en þau koma til framkvæmda, þá hljóta tekjuáætlanir að vera allmjög í lausu lofti, sérstaklega á breytilegum tímum, og mun svo verða þangað til breytt kann að verða um þinghald eða reikningsár ríkissjóðs þannig, að fjárlög komi til framkvæmda þegar eftir að þau eru samþ. Þangað til að slík skipan hefir verið gerð, mega menn sætta sig við óviss og ónákvæm fjárlög. Um borðfé konungs skal ég geta þess, að ég áætlaði það í íslenzkum krónum, enda er sjálfsagt, að frv. sé allt miðað við okkar eigin krónu, en ef þm. vilja heldur, að borðféð sé tiltekið í dönskum krónum, þá væri vitanlega hægt að færa mismuninn á gengisreikning. En ég tel ekki ráðlegt að lækka þessa samningsbundnu greiðslu. Það er rétt að halda henni óbreyttri meðan við höfum konung yfir landinu, enda lít ég svo á, jafnvel þó brtt. n. um þetta atriði verði samþ., að ekki sé ætlazt til, að breytt verði þessari greiðslu frá því, sem verið hefir.

Ég tel og vafasamt, að hægt sé að lækka starfslaun hjúkrunarkvenna, sem vinna við spítala, og hygg ég, að hv. n. hafi ekki notið þeirra upplýsinga, sem henni hefði verið nauðsynlegar í þessu efni frá landlækni og dómsmálaráðuneytinu. Líkt er að segja um skrifstofukostnað sýslumanna, að ég hygg, að vart muni fært að lækka þann lið um 10 þús. kr., eins og n. leggur til, því að þegar í frv. var hann allmjög skorinn við nögl. Annan kostnað spítalanna hefir n. sundurliðað öðruvísi en gert er í frv., og mun það vera gert samkv. nýjum og fyllri upplýsingum frá landlækni. Um Kristneshæli er það að segja, að ég hefi ekki litið á það sem ríkisstofnun eins og hv. n., gerir. Mér er ekki kunnugt um neina lagaheimild fyrir því, að Kristneshæli hvíli algerlega á ríkinu. Ég hygg, að n. hefði eitthvað sagt við því, ef ég hefði t. d. tekið Elliheimilið upp í fjárlög. Ef hinsvegar á nú að taka kostnaðinn við Kristneshæli sundurliðaðan inn í fjárlög, þá má líta svo á, að hælið sé þar með orðið ríkisstofnun. Hér er ekki um stórt fjárhagsatriði að ræða, þar sem Berklavarnalögin standa að kalla undir öllum kostnaði við hælið.

Ég þarf svo ekki að lengja mál mitt fram úr þessu. Í mörgum efnum er ég sammála hv. n. um niðurfærslur hennar á gjöldum ríkisins, þeim, sem mögulegt er að lækka. Flest eru það smáar niðurfærslur, sem hv. n. leggur til. Hún sýnist hafa fundið það eins og ég, hve erfitt er að koma gjöldunum niður. — Um sparnaðarfrv. hv. fjvn. vil ég segja það, að ég tel mér skylt að styðja það, þegar til kemur.