10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (4336)

540. mál, áfengisbruggun og önnur áfengislagabrot

Jakob Möller [óyfirl.]:

Í raun og veru hefir hv. flm. till. tekið af mér ómakið með að mæla fyrir þeirri brtt., er ég hefi borið fram á þskj. 665. Hann hefir í fám orðum sagt það um till., sem um hana þurfti að segja, og hefir mælt með því, að hún verði samþ. Ég get þó stuttlega rakið sögu þessa máls, þótt hún sé sjálfsagt hv. þm. kunn.

Í þeirri reglugerð, sem gerð var samkv. Spánarsamningunum og heimilar sölu Spánarvína með mat á einu veitingahúsi hér í bæ, var svo ákveðið, að þetta skyldi gert tvisvar á dag, um venjulega matmálstíma, um hádegi og kl. 6 síðd. En á síðastl. hausti voru ný ákvæði um þetta sett og víntíminn fluttur frá fyrri hluta dagsins að nokkru, en bætt við að kvöldinu, svo nú má veita vin frá kl. 9–11, sem áður mátti ekki. Í l. frá 1930 er það ákvæði sett, að vínið skuli eingöngu veitt með mat. Er því auðsætt, að vínveitingar svo síðla dags fara ekki fram á matmálstíma. Á því vel við, að í þá till., sem hér liggur fyrir og fjallar um áfengislagabrot, komi ákvæði um þetta, því þó hér sé máske ekki. bókstaflega um bannlagabrot að ræða, þá er þó áfengislöggjöfin raunverulega brotin með þessari færslu á vínveitingatímanum.

Það liggur nú í hlutarins eðli, að ríkisstj. hafi ekki farið að ráðfæra sig við bæjarstj. Rvíkur um þetta, né heldur lögreglustjóra bæjarins, sem líka á sæti í bæjarstjórn. Bæjarstj. andmælti þessu með samhljóða atkv. og lögreglustjórinn taldi mjög óheppilegt, að vínveitingar færu fram á þessum stað á þessum tíma. Þetta er líka svo. Eftir kl. 9 að kvöldi byrjar aðalaðsókn ungs fólks að veitingasölunum. Það fer þangað ekki í þeim aðaltilgangi að fá sér vín, enda átti slík aðsókn sér stað áður en vínsala — a. m. k. lögleg — varð á þessum tíma. Það kemur til að skemmta sér við dans og hljóðfæraslátt og til kynningar og samvista. Aðsókn þess stendur því ekki í neinu sambandi við vínveitingar. En vegna þess að vínið er haft um hönd á þessum sama tíma, þá getur það auðveldlega leiðzt út í að fá sér vín, þar sem það er leyfilegt og þarf ekki að fara í neina launkofa með það. Bæjarstj. var því óánægð með þetta og skoraði á stj. að breyta þessu í fyrra horf. En sú áskorun bar engan árangur. Því var svarað, að þetta væri gert til bráðabirgða sem tilraun. En það hefir þó enn ekki verið numið úr gildi.

Ég ætla ekki að stofna til langra umr. um þetta mál með því, sem ég segi. Læt því þetta nægja um till. sjálfa.

Um brtt. hv. þm. Dal. við mína brtt. get ég verið samdóma hv. þm. Seyðf. Það getur á engan hátt átt við, að þingið afsali sér því valdi og þeim rétti, sem það hefir til að leggja sjálft dóm á þetta, með því að vísa því til álits stj. Hún mun naumast mikið í því gera. Færsla vinveitingatímans, eins og ég hefi lýst, verður til þess, að fleiri byrja að drekka og að meira verður drukkið. Ég hygg, að fá megi sönnur fyrir þessu, ef stj. vildi láta fara fram athugun á því, hversu mikið hefir verið drukkið eða selt á hótelinu fyrir og eftir breytinguna. Ég vænti þess, að sú athugun leiddi í ljós, hver áhrif þetta hefir haft, ef lögum og reglum hefir verið fylgt áður um sölu vína þar. Það er nú reyndar vitað, að svo hefir ekki verið, enda var gestgjafinn kærður um sama leyti og breytingin fór fram og hlaut dóm fyrir ólöglega vínsölu. Dregur sú ólöglega sala, sem átti sér stað, bæði í herbergi og út frá hótelinu, vitanlega mjög úr gildi þess samanburðar, því talsverð vínsala hefir getað átt sér stað á þann hátt, áður en breytingin á vínsölutímanum var gerð.