04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í C-deild Alþingistíðinda. (4507)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Héðinn Valdimarsson:

Í samræmi við ræðu mína við 1. umr. þessa máls hefi ég leyft mér að bera hér fram nokkrar brtt. við frv., sem ég nú vil gera grein fyrir með nokkrum orðum. Eins og ég þá tók fram, fer frv. fram á að heimila bændum og öðrum mjólkurframleiðendum að setja á stofn einkasölu á mjólk í kaupstöðum landsins án þess að samþykki hlutaðeigandi bæjarstjórna sé fyrir hendi. Þetta finnst mér sem regla ótilhlýðilegt og ber því fram brtt. við 1. gr. frv., sem gengur í þá átt, að atvmrh. sé því aðeins heimilt að staðfesta reglugerð um það skipulag, sem mjólkurframleiðendur samkv. gr. hafa orðið ásáttir um, ef hlutaðeigandi bæjarstj. hafa samþ. reglugerðina fyrir sitt leyti. Vænti ég þess, að hv. n. geti fallizt á þessa brtt., því að þetta er sjálfsögð sanngirniskrafa bæjunum til handa.

Þá vil ég láta taka meira tillit til þeirra mjólkurframleiðenda, sem heima eiga innan lögsagnarumdæma kaupstaðanna, en frv. gerir, því að ef það verður samþ. óbreytt, verður höfð sameiginleg sala á mjólkinni, og rennur söluverðið þannig í sameiginlegan sjóð, sem framleiðendunum verður greitt úr, hverjum eftir því mjólkurmagni, sem hann leggur fram. Með þessu móti verður nokkur hluti af mjólk allra framleiðendanna notaður í skyrgerð, ostagerð o. s. frv., en þetta er sem kunnugt er síður arðvænlegt en sala á mjólkinni beint til neyzlu, og af þeim ástæðum þykir mér ósanngjarnt að leyfa ekki þeim mjólkurframleiðendum, sem búsettir eru innan lögsagnarumdæmanna, að sitja fyrir sólu á neyzlumjólk umfram hina, eins og verið hefir og eðlilegt er vegna aðstöðunnar, og hefi ég borið fram brtt. við frv., sem fer í þá átt. Jafnframt ætlast ég til, að kúabú kaupstaðanna sjálfra sitji fyrir um sölu á barnamjólk og annari mjólk, sem fer til neyzlu beint í kaupstaðnum, en slík kúabú eru nú þegar risin upp í nokkrum kaupstöðum, t. d. á Ísafirði og Siglufirði, og mundi einnig fyrir löngu sett á stofn hér í Rvík, ef við jafnaðarmenn fengjum hér nokkru um ráðið. Er engin sanngirni í því, þegar svo stendur á, að bæjarfélögin sitji ekki fyrir slíkum mjólkurfélögum, sem frv. gerir ráð fyrir, um sölu á mjólkinni til neyzlu, og vænti ég, að allir geti fallizt á það.

Þá á mjólkursölustj. samkv. frv. að vera skipuð stjórnum mjólkurbúanna og umboðsmönnum annara framleiðenda, og er þannig um þetta ekkert tillit tekið til hagsmuna neytendanna. Hefi ég því borið fram brtt. í þá átt, að mjólkursölustj. sé að jöfnu skipuð úr flokki neytenda og framleiðenda, en oddamann skipar atvmrh. Get ég ekki annað séð en þetta sé mjög sanngjarnt og vonast því til, að n. geti fallizt á það, auk þess sem slíkt fyrirkomulag er heppilegast fyrir báða aðilja, neytendur sem framleiðendur, því að samstarf er til heilla bezt í þessum hlutum sem öðrum.

Þá þykja mér þær reglur of ónákvæmar, sem frv. setur um ákvörðun mjólkurverðsins. Vil ég ganga betur frá þessu, svo að það sé ótvírætt, því hvaða verð er átt, því að framleiðsluverðið er misjafnt eftir hinum ólíku skilyrðum. Vil ég láta leggja til grundvallar við ákvörðun mjólkurverðsins það verð, sem nauðsynlegt er að hafa til þess að hægt sé að framleiða á hagnýtastan hátt og á heppilegustu stöðum næga og góða mjólk fyrir neytendurna í kaupstöðunum. Ef mjólkursalan á að hafa áhrif á ræktun landsins og skipulag mjólkurframleiðslunnar, verður ekki á öðru byggt en því, sem er hagkvæmast fyrir neytendurna um að fá mjólkina.

Loks flyt ég svo brtt. við 3. gr. frv., sem að vísu skiptir ekki miklu máli, en gengur í sömu átt. Er hún þess efnis, að þegar meiri hl. mjólkurbúa landsins hefir komizt undir skipulag mjólkursölu samkv. 1. gr. frv. og einnig um sölu á erlendan markað, geti atvmrh. gefið út sérstaka reglugerð um það efni, að fengnum till. hinna einstöku mjólkursölustjórna. Finnst mér réttmætt, að neytendurnir hafi líka sitt orð að segja í þessu efni.

Þó að ég hafi borið fram þessar brtt. við frv., verð ég að segja það, að ég tel samt mjög varhugavert að samþ. slíkar einkasölur fyrir bæina án þess að þeirra álits sé áður leitað þar um. Hefði ég óskað eftir, að frv. yrði sent bæjarstjórnum landsins til umsagnar, enda engin nauðsyn að hraða málinu svo mjög og nóg, að það komi til afgreiðslu á næsta þingi. Ég vil því leyfa mér að bera fram svo hljóðandi rökst. dagskrá:

„Þar sem ekki hefir verið leitað álits kaupstaðanna um frv., sem lögheimilar einkasölu á mjólk innan þeirra til handa framleiðendum utan kaupstaðanna, telur d. varhugavert að samþ. frv. að kaupstöðunum forspurðum, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá“.

Ég vil geta þess, að þótt ég nú beri fram þessa rökst. dagskrá, erum við jafnaðarmenn þess fýsandi, að skipulagi sé komið á mjólkursöluna, því að það er báðum aðiljum til gagns, neytendum jafnt sem framleiðendum, en við álitum ekki heppilegt að gera endanlegar ákvarðanir í þessu máli fyrr en svör eru komin frá kaupstöðunum.