18.02.1932
Neðri deild: 4. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

7. mál, lax- og silungsveiði

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég hygg, að það myndi verða til mikilla nytja, ef Alþingi gæti nú afgr. frv. þetta, sem nú er í þriðja sinn lagt fyrir það. Fyrir mér er það aðalatriðið, að það verði afgr. á þeim grundvelli, sem í því er lagður, því að góð löggjöf um þetta efni mun án efa verða laxveiðieigendum til mikilla hagsbóta, með aukinni veiði o. fl.

Frv. er borið fram nú eins og það var lagt fyrir síðasta vetrarþing, með þeim breytingum einum, sem gerðar voru af hálfu hv. 1. þm. Árn., sem starfaði í nefndinni, er undirbjó málið. Þær breytingar hafa verið felldar inn í frv.

Ég vil nú leyfa mér að beina mjög eindregið þeim tilmælum til hv. landbn., sem mál þetta fær til meðferðar, að hún leggi nú þegar þá vinnu í það, sem þarf til þess að hún komi því frá sér sem fyrst, svo mögulegt verði, að það fái fulla afgreiðslu á þessu þingi, því að víða er beðið eftir því með óþreyju. Annars hygg ég, að málið hafi nú þegar fengið þann undirbúning, að ekki þurfi að eyða mjög miklum tíma til afgreiðslu þess.

Að umr: lokinni, óska ég frv. vísað til 2. umr. og landbn.