11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1343 í C-deild Alþingistíðinda. (4520)

225. mál, mjólk og mjókurafurðir

Magnús Torfason:

Ég get byrjað með að þakka hv. l. landsk., hve hóglega og skynsamlega hann talaði um hetta mal. Ég er ekki vanur að hefja umr., þegar mal liggja fyrir til 1. umr. En út af því, sem fram hefir komið hér í umr., þá finnst mér ég geti ekki leitt hjá mér að benda á nokkur atriði.

Þá vil ég fyrst geta þess, að það er ekki aðeins í vatnalöggjöfinni, sem menn eru neyddir til samtaka með samþykkt meiri hl., heldur miklu víðar. Ég skal t. d. benda á fiskveiðalöggjöfina, þar sem menn eru með samþykktum neyddir til að fylgja lögum og reglum, hvort sem þeim er það ljúft eða leitt. Her er vitaskuld ekki um jákvæðar gerðir manna að ræða, heldur neikvæðar, en þá hafa höftin á atvinnu manna verið þeim mun meiri. Ég hefi sjálfur komizt í að afnema slíkar samþykktir, sem illu heilli voru gerðar til stórskaða fyrir afkomu heilla héraða. Minni ég á áveitulögin um Flóann. Ég býst því ekki við, að hægt sé að segja, að í frv. þessu sé að finna neina nýjung, sem fari í bág við ákvæði stjskr.

En hitt játa ég, að þetta frv. er að ýmsu leyti nokkuð ónákvæmt og óljóst orðað, og er það e. t. v. ekki nema að vonum, þar sem vitað er, að frv. mun vera samið á síðustu stundu og án nægilegrar athugunar í öllum greinum, hvað á að taka með og hvað ekki. En við vitum víst öll, sem hér eigum sæti, ástæðuna til þess, að slíkt er fram komið. Það er af deilum manna í millum, ekki aðeins austanfjalls, heldur engu síður munu þær deilur vera komnar frá mönnum hér í Rvík. Eftir því sem ég veit bezt, mun Mjólkurfel. Rvíkur hafa átt sinn þátt í, að þessi leið var farin, þó ég hinsvegar geti hugsað mér einstök atriði í frv., sem Mjólkurfél. fallist ekki á.

Í þessu sambandi og að því leyti, er snertir þetta valdboð um sölu mjólkur og mjólkurafurða, þá vil ég benda á, að mér finnst einkennilega til orða tekið í 1. gr., þar sem sagt er, að „atvinnumálaráðherra er heimilt að staðfesta um það reglugerð, og er hún þá bindandi fyrir alla aðila“. Vanalega er orðalagið þannig, að ráðh. staðfesti reglugerð, þegar hann hefir breytt því, sem hann vill hafa, í henni. En þarna er aðeins um heimild að ræða, og finnst mér, að með henni sé ráðh. fengið vald, eða a. m. k. gefið undir fótinn, svo að hann geti blátt áfram neitað um staðfestingu reglugerðarinnar, ástæðulaust.

Af því að fram er komið í umr. og hv. 2. landsk. drap á það, að ágreiningur sé um, hvort gerilsneyða eigi alla sölumjólk eða ekki samkv. b-lið 2. gr., þá verð ég að álíta, að óþarfi sé að gerilsneyða alla mjólk, sem seld er í bænum, og ætti því að nægja að setja reglur um að gerilsneyða eitthvað af henni.

Þegar menn eru að tala um nauðung og bann á mjólkurframleiðendum, þá held ég, að engin hætta sé á, að slíkt geti orðið. Með bættum samgöngum og aukinni ræktun, sem við væntum að verði, þá getum við gengið út frá því, að mjólkurframleiðslan verði yfirfljótanleg fyrir þessi héruð, eins og fram er komið á ýmsan hatt. Og þá mun lögmálið um framboð og eftirspurn, sem sumir hv. þdm. halda svo mikið upp á, ráða verði mjólkurinnar.

Það hefir verið talað um, að með frv. þessu eigi að sniðganga stjórnarvöld bæjarins, sérstaklega þó heilbrigðisnefnd. En því trúi ég ekki. Ég hefi gengið út frá, að ráðh. samþ. aldrei neitt í þessu efni án þess að neyta umsagnar og leiðbeiningar þeirra manna, er sérstaklega hafa vit á slíkum málum. Og ég get því ekki hugsað mér annað en að slík mál sem þetta verði send heilbrigðisvöldunum, og þá fyrst og fremst heilbrigðisnefnd Rvíkur, til yfirlestrar og athugunar.

Mér er óhætt að segja, að engin hætta er á, að menn austanfjalls ætli sér þá dul að kúga Reykvíkinga á einn eða annan hatt, og sérstaklega ekki í þessu mjólkursölumáli. Mér er fullkomlega kunnugt um, að bændur austanfjalls vilja á allan hátt eiga góð viðskipti og gagnleg við Reykvíkinga, ekki aðeins með því að selja heim afurðir sínar, heldur líka með því að kaupa af þeim það, sem þeir þurfa með. Og að þeir ætli sér að vinna sérstaklega á móti mjólkurframleiðendum hér í bænum og nágrenni hans, held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að þeim hafi aldrei komið til hugar. Enda hygg ég, að ef skynsamleg samtök komast á um framleiðslu og sölu mjólkur, þá verði það öllum til góðs og gagns, Reykvíkingum jafnt sem öðrum, og þá sérstaklega neytendum.

Því er ekki að neita, eins og hv. 1. landsk. helt fram, að hér þarf að koma á einhverju skipulagi um mjólkursöluna. En ég hefði vel getað skilið, samkv. skoðunum hans á slíkum málum, að hann væri ekkert sérlega ginnkeyptur fyrir þessu. En eins og ég tók fram í upphafi ræðu minnar, talaði hv. 1. landsk. svo hóglega og skynsamlega um málið og taldi fulla þörf nýs skipulags á þessu sviði. En hinu get ég ekki neitað, að mér kom nokkuð á óvart, að hv. 2. landsk. legðist hart á móti því, að reynt væri að koma skipulagi á þetta. Hann hefir hingað til ekki verið fastur á móti því, að ríkisvaldið eða eitthvert annað almennt vald reyndi að koma skipulagi á það, sem ætti að fara eins vel í viðskiptum og vera mætti, eins og t. d. mjólkursalan.

Í sambandi við það, sem hv. 3. landsk. sagði um óánægju gegn bændum austanfjalls, vil ég geta þess, að hún liggur ekki í því, að bændur fá ekki nema 12 aur. fyrir hvern mjólkurlítra. Orsakirnar til óánægjunnar liggja á öðrum sviðum, og það er það, sem ég býst við, að vakað hafi fyrir hv. 1. landsk.