07.04.1932
Neðri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

7. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég skal ekki lengja umr. mjög með því að svara þeim aths., sem fram komu við till. landbn. Hv. 1. þm. Árn. gerði aths. við þrjár af brtt. n., og skal ég þá fyrst leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær till. og hans aths. Fyrst gerði hann aths. við brtt. okkar við 13. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að þegar um ræðir að laxveiðaréttindi í sjó hafa verið metin til fasteignamatsverðs, leggjum við til, að miðað sé við hið nýja fasteignamatsverð, sem gengur í gildi nú á þessu ári, en ekki fasteignamatið frá 1922. Hv. þm. benti á, að það væri mjög óvarlegt að færa út veiðirétt í sjó, en búast mætti við, að laxveiðihlunnindi í sjó hefðu víðar verið metin við hið nýja mat heldur en við fasteignamatið frá 1922, og mundi því breyting n. verða til þess, að víðar mætti stunda laxveiði í sjó en ella. Í því sambandi skal ég taka það fram, að ég er í raun og veru á því, að undantekningarlaust hefði átt að banna laxveiði í sjó, og hefði því getað fylgt því, að þau ákvæði hefðu verið felld úr frv. En að mínu áliti á annaðhvort að fella rétta allt í burt eða þá taka tillit til allra þeirra staða, þar sem þetta nú er metið. Mér finnst ekki koma til mála að miða við matið frá 1922, þar sem nú hefir verið metið af nýju, og því vil ég halda fast við till. n. um að miða við nýja fasteignamatið. Ég get ekki fallizt á það fyrir n. hönd, að hún taki til greina þær aths. hv. þm., að þetta sé á svo fáum stöðum, að það geri ekki nokkurn mun. Ef þær jarðir, þar sem hlunnindi þessi hafa verið metin 1922, fá að halda þeim, þá er rétt og sjálfsagt, að þær jarðir, þar sem hlunnindi þessu kynnu að hafa verið metin í hinu nýja mati, fái einnig að halda þeim.

Þá gerði hv. þm. einnig aths. við brtt. við 17. gr., þar sem lagt er til að færa vikufriðunina úr 60 stundum í 413 stundir. Ég gat þess við framsögu málsins, að n. klofnaði um þetta atriði. En fyrir mitt leyti var ég á móti því að færa þetta niður í 48 stundir og er því í þessu atriði sammála hv. þm. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Borgf. muni svara fyrir sitt leyti og þeirra nm., er sömu skoðun hafa um þetta atriði. Á hinn boginn er ég á móti brtt. hv. 1. þm. Árn. um að færa friðunartímann upp í 72 stundir á viku hverri. Ég tel það rétt eins og í frv. er, að friðunin sé höfð 60 stundir. Hv. 1. þm. Árn. gat þess, að Norðmenn hefðu 72 stunda vikufriðun þetta er rétt, en ég hygg, að þetta sé of stórt stökk í einu. Ég hygg, að ekki sé ráðlegt að fara lengra fyrst um sinn en frv. gerir.

Að lokum gerði hv. þm. nokkrar aths. við 18. brtt. n., um baetur til selveiðieigenda. Ég lít svo á, að úr því að leggja á á laxveiðieigendur bætur fyrir selveiðimissi til þeirra manna, er búa á jörðum í einstakra manna eign, þá sé eins eðlilegt, að þeir greiði bætur til þeirra, er búa á jörðum í opinherri eign. Ég sé enga ástæðu til að gera upp á milli þessara tveggja flokka landsdrottna. Í flestum tilfellum má gera ráð fyrir, að við eyðingu selsins komi aukin laxveiði í staðinn, svo þessar bætur séu aðeins tímaspursmál. Hv. 1. þm. Árn. gat um eitt friðlýst selalátur í Arnarbæli, sem hið opinbera ætti og nauðsynlegt væri, að ríkissjóður greiddi bætur fyrir, ef eyðilagt væri, en ég get ekki skilið, að þetta eina tilfelli gæti réttlætt það að ganga frá hinni almennu reglu um það, hvernig bótum þessum skuli fyrir komið. Ég get því ekki fyrir hönd n. fallið frá þessari brtt.

Í raun og veru hefi ég ekki fleira að segja við hv. 1. þm. Árn., þar sem hann hafði ekkert við aðrar brtt. landbn. að athuga.

Út af ummælum hv. þm. Dal. um 30. gr., þar sem svo er ákveðið, að girðingar megi aldrei ná yfir meira en 1/3 hluta af breidd ár og aldrei megi girða yfir aðalstraumlínu, verð ég að fara nokkrum orðum. Honum þótti ákvæði hennar of hörð og vildi láta þau vera undanþæg. Ég get vitanlega ekki skýrt frá afstöðu n. til þessa atriðis núna, enda liggur enn ekki fyrir brtt. um það. En persónulega þykir mér varhugavert að leyfa nokkrar undanþágur frá þessum ákvæðum þetta er eitt af höfuðakvæðum frv. til þess að friða laxinn á göngu hans upp árnar, og er að mínum dómi mjög svo varhugavert að veita nokkrar undanþágur frá slíkum aðalfriðunarákvæðum frv. Það er hætt við, að slík heimild yrði teygð og toguð, svo undanpágan yrði að aðalreglu. Hinu er ekki hægt að neita, að þetta ákvæði getur komið alltilfinnanlega við einstaka menn, þar sem sérstaklega stendur á um aðstöðu til veiðiskapar. En það verður að vera svo hér sem ella, að hagsmunir einstaklinga viki fyrir hagsmunum heildarinnar. En um þetta skal ég ekki fara fleiri orðum nú, þar sem brtt. liggur ekki fyrir við þessa umr.

Hv. 1. þm. Arn. talaði hér rækilega um brtt. hv. þm. Borgf. á þskj. 338. Ég mun því ekki tala langt mál um þær, og það, sem ég segi um þær, segi ég sem þm., en ekki sem frsm. n., því að hún er klofin um þær. En sjálfur er ég að mestu sammála því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði um þær.

Höfuðbreytingar hans snerta 1. og 2. gr. frv. Ég tel þær að mörgu leyti hættulegar. Hann vill fella það ákvæði 2. gr. niður, að veiðiréttur skuli jafnan fylgja landi því, er að veiðivatni liggur, og hafa þar um allt óbundið. Ég vil benda á, að með þessu frv. eru felld niður ákvæði vatnalaganna, 103. gr., um þetta efni. Þau eru ekki eins ströng og ákvæði 2. gr. frv., en eru þó allhörð. Með brtt. hv. þm. Borgf. eru gildandi ákvæði í vatnalögunum um þetta efni felld niður og ekkert sett í staðinn. Ég er á þeirri skoðun, að sjálfsagt sé að veiði fylgi jafnan jörðu. Þess eru dæmi, að hitt hefir verið misnotað mjög, veiðin nídd og jarðirnar rúnar að nytjum hennar. Sá, sem situr jörð, hugsar að jafnaði meira um það, að veiðin haldist við; hún er ekki einungis honum ætluð, heldur og öllum þeim, er eftir hann sitja jörðina. En hafi maður veiðiréttinn einn, kannske um stuttan tíma, hugsar hann um að notfæra sér hann sem bezt og sinnir því ef til vill engu, hvort stofninn gereyðilegst um alla framtíð. Um stangaveiði gildir allmjög annað, því að þar er ekki bæta á, að stofninn eyðileggist. því er samkv. frv. heimilt að skilja stangarveiði frá jörðu um tiltekið tímabil. En ég tel þessar brtt. hv. þm. Borgf. fráleitar.

Hv. þm. taldi, að menn mundu fara í kringum þessi ákvæði og nota jeppa, en það væri ekki rétt að neyða menn til að fara í kringum lögin. Nú vil ég leyfa mér að benda á, að hv. þm. er eindreginn bannmaður. Engin lög er meira farið í kringum en bannlögin. Þó vill hann halda þeim uppi, þótt hægt sé að fara í kringum þau.

3. gr. frv. vill hv. þm. fella alveg burt þetta er í beinu áframhaldi af afstöðu hans til 2. gr. Úr því hann vill ekki hindra það, að jarðir missi veiðirétt sinn, þá er eðlilegt, að hann sjái heldur ekki ástæðu til að gera mönnum mögulegt að sameina veiðiréttinn jörðum sínum aftur, ef þeir hafa þegar misst hann. En eins og ég álít rétt að fyrirbyggja það framvegis, að veiði sé skilin frá jörðum, eins tel ég sjálfsagt að lagfæra þau mistök, sem þegar eru orðin á þessu.

Annars skal ég ekki fara frekar út í þetta; það hefir hv. 1. þm. Árn. gert, og er ég honum samþykkur. Ég skal þó geta þess, að svipuð ákvæði eru víða í erlendri löggjöf, svo að þetta er ekkert nýtt. Það getur því varla verið um neitt stjórnarskrárbrot að ræða, eins og heyrzt hefir.

Þá flytur hv. þm. miklar brtt. við 16. gr. frv., þar sem hann vill setja það á vald sýslunefnda að akveða veiðitímann. Mér sýnist það óþarft að leggja þetta á vald sýslunefnda. Ég get ekki fallizt á, að það sé heppilegt að gera veiðitímann meira tilfærilegan en nefndin leggur til í sínum till., enda mun ekki hægt að benda á, að það brjóti í bág við venjur hinna ýmsu héraða um, hvenær laxveiði sé stunduð.

Þá vill hv. þm. rýmka ákvæði frv. um veiði göngusilungs. Það er vitanlega hættulegt að leyfa ádrátt á göngusilung í laxveiðivötnum eftir friðunartíma laxins. Það er ekki unnt að leyfa ádrátt í laxveiðivötnum án þess að leggja laxinn í hættu. Í sumum sveitum er talað um að fá eitthvað stórt, þegar lax kemur í ádrátt með silung. Ég hygg það viðurhlutamikið að rýmka ádráttaveiði frá því, sem er í frv. Ég væri fremur tilleiðanlegur til að þrengja hana enn frekar en gert er í frv., því að ég hygg, að ádráttur sé ein hin skaðlegasta veiðiaðferð.

Þá vill hv. þm. leyfa ádrátt 5 daga í viku, í stað þess, að frv. leyfir hann aðeins í 4 daga. Ég er þessari brtt. mótfallinn og vildi fremur fara niður í 3 daga. Þeir, sem eitthvað hafa verið riðnir við laxveiði munu vera á einu máli um það, að ádráttur sé ein hin versta veiðiaðferð. Úr því hv. þm. vitnaði í Halldór á Hvanneyri, þá vil ég gera það líka. Hann sagði, þegar hann átti tal við landbn., að það væri einn hinn mesti ókostur frv., að það gerði of greitt fyrir með ádrátt. Það þyrfti að þengja enn meir.

Það er engin ástæða til að stækka möskvastærðina, af ástæðum þeim, sem hv. 1. þm. Árn. hefir þegar getið. það er vísindalega sannað, að aðeins örlítið brot af laxinum gengur í árnar oftar en einu sinni. Smálaxinn er einungis sérstakt kyn, en ekki óþroskaður lax, er gengur aftur í árnar, eins og hv. þm. Borgf. heldur. Að bíða eftir því, að hann stækki, væri því svipað og ef við færum að bíða eftir því, að íslenzkur hestur yrði eins stór og józkur hestur.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða meira að sinni um brtt. þær, er hér liggja fyrir.