01.04.1932
Neðri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

12. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég efa ekki, að hv. 2. þm. Rang. fari rétt með það, að Bjarni heit. frá Vogi hafi haldið því fram, að ríkissjóður ætti að kosta allar landvarnir þarna fyrir austan. En Alþ. féllst þó ekki á þá skipun í það sinn, heldur ákvað, að ríkissjóður skyldi greiða 3/4, en 1/4 kostnaðar skyldi jafnað niður á vatnasvæðinu. Svo að ef stefna Alþ. er hin sama nú og hún var þá, mun ekki nást samþykki fyrir því, að ríkið greiði allan landvarnarkostnaðinn. Samþykkt brtt. á þskj. 283 mun þá verða til þess, að frv. verður fellt, og væri það illt. Ég álít heppilegast að blanda ekki landvörnunum inn í þetta, heldur láta frv. halda áfram sem hreint samgöngumál. Landvarnirnar eru mikið vandamál, sem hvergi nærri því er óleyst hvað undirbúning snertir, og þurfa mikillar rannsóknar enn. Er lítt hugsanlegt, að út í þær verði lagt án þess eitthvert tillag komi á móti. Samgöngubætur eru heldur ekki allar eingöngu kostaðar af ríkinu. Til þeirra eru oft veitt framlög frá öðrum stöðum í ýmsri mynd.