05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Magnús Guðmundsson:

Ég heyri það, að hv. frsm. lítur á þennan veg sem einskonar undirbúning undir járnbraut. Ég man ekki vel, hvað þessi vegur á að kosta; mig minnir, að hann eigi að vera mjög dýr. Ég veit ekki, hvort hv. frsm. hefir athugað það, að ef þessi vegur verður gerður eins og hér er áætlað, mundi hann verða nokkru dýrari en vera þyrfti sem undirbúningur undir járnbraut. fyrir mér stendur þetta þannig, að ég get eins ímyndað mér, að verði þessi vegur lagður, þá verði það til að seinka fyrir þeim samgöngubótum við Suðurland, sem duga. Ég segi fyrir mig, að væri ég þm. héraðanna austanfjalls, há mundi ég hugsa mig um tvisvar áður en ég gengi að þessu frv. Það ræður af líkum, að þegar ríkissjóður er búinn að leggja stórfé í þennan veg, sem á að heita vetrarvegur, þá geti það haft allóþægileg áhrif á frekari fjárframlög að sinni. Ég ætla ekkert að fara út í járnbrautarmálið að þessu sinni. Tilboði um járnbraut fyrir 2 millj. gegn sérleyfi um virkjun fossanna í Þjórsá var ekki tekið. En út í það mun ég ekki fara nánar nema sérstakt tilefni gefist.

Ég mun sem á þinginu í fyrra hvorki greiða atkv. með eða móti þessu máli.