20.04.1932
Efri deild: 56. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

13. mál, vegur frá Lækjarbotnum austur í Ölfus

Halldór Steinsson:

það er ekki rétt hjá hv. 2. þm. Árn., að skinið hafi út úr ræðu minni, að ég léti mér ekki annt um þennan veg. Ég mun ekki frekar amast við þessum vegi en öðrum. Ég tel það ágætt, að við gætum fengið sem flesta vegi. Ég talaði um það í fyrri ræðu minni, að ég sæi ekki fram á, að hægt yrði að byrja á þessum vegi í náinni framtíð, og þess vegna væri það þarfleysa að hafa ákvæði um hann í lögum nú þegar. Hv þm. minntist á, að ég hefði hagað mér öðruvísi í næsta máli hér á undan, en þar er allt öðru máli að gegna. Til þess að hægt sé að byrja á þeim framkvæmdum, sem þar er farið fram að hafa sýslubúar safnað 100 þús. kr. Mér vitanlega er ekkert slíkt fyrir hendi í þessu máli, og aðstaðan því allt önnur. Þá bar hv. þm. þetta frv. saman við brúalögin, sem ekki eru á neinn hátt sambærileg við þetta. Ef rétta hefði verið till. um að taka þennan veg í þjóðvegatölu, þá hefði mátt bera það saman.

Ég vil svo að lokum mælast til þess, að hæstv. stj. gefi þær upplýsingar, hvort það fé sé eða verði fyrir hendi á næstu árum, sem þarf til þess að leggja í þennan veg, sem þegar hefir verið lýst yfir, að muni kosta a. m. k. 2 millj. kr. Og ef svo er ekki, sé ég enga þörf á að lögfesta þetta nú, enda alltaf hægurinn hjá, þegar féð er til.