08.04.1932
Neðri deild: 46. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1933

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem ég vil láta falla nú við byrjun umr. um þennan seinni kafla fjárl. Það leynir sér ekki af þeim brtt., sem hér liggja fyrir frá hv. fjvn., hverskonar tímar ráð eru, sem nú ganga yfir og búizt er við framundan. Eins og hv. frsm. hafa tekið fram, þá eru brtt. n. þannig, að í viðbót við það, að hæstv. fjmrh. hafði fært allmikið niður útgjöldin frá því, sem er í núgildandi fjárl., þá hefir fjvn. stigið stórt spor til lækkunar útgjalda, sem einungis á þessum seinni kafla nema hundruðum þúsunda. Það kemur einnig fram í brtt. þeim, sem fyrir liggja frá einstökum þm., sem eru, eins og hv. frsm. gat um, mun færri en venjulega, að allmargar þeirra eru þannig, að jafnframt því, sem bornar eru fram till. til útgjalda, þá eru bornar fram till. um lækkanir annarsstaðar, til þess að sýna sinn vilja í því að vera samþykkir stefnu fjvn. Ég fyrir mitt leyti vil láta það í ljós, að ég er algerlega sammála þeirri stefnu, sem n. hefir tekið upp og lagt mikla vinnu í. Mun ég styðja það með mínu atkv. í sambandi við þessa afgreiðslu fjárl. Ætla ég að vona, að þetta, sem kemur nú svo greinilega í ljós í sambandi við flutning þessara till., þýði, að afgreiðsla fjárl. fái mjög sinn svip af þeim till., sem þegar eru komnar fram. Út frá því, að n. hefir stigið þetta spor svona myndarlega, einungis út frá því get ég fallizt á að stiga ýms þau spor, sem snerta ýmsa liði 16. gr. og heyra undir mitt ráðuneyti. N. hefir hnigið að því að fresta og sumpart draga úr fjárframlögum til landbúnaðarins, sem bein vissa er fyrir um, að komið hafa að miklu gagni og myndi koma framvegis, t. d. fresta stofnun bústofnslánadeildar og lánadeild smábýla í Búnaðarbankanum, fresta aðstoð hins opinbera í sambandi við kaup á tilbúnum áburði, lækka styrkinn til Búnaðarfél. Íslands og tilraunastarfsemi o. s. frv. Það kemur ekki til mála að stiga svona spor, nema undir svona kringumstæðum, þegar yfirleitt er farið á fremsta hlunn með að draga úr útgjöldunum. Ég vil einungis segja í því sambandi, að það, sem kom mér kynlega fyrir sjónir og ég hafði ekki heyrt um áður, var það, sem hv. frsm. sagði, að það væru teknar 10 þús. kr. af Búnaðarfélagi Íslands til þess að hækka annan lið, sandgræðsluna. Nú er ég mjög kunnugur þessu hvorutveggja og vil einungis segja það, að ég lít svo á, að rétt sé að láta jafnt ganga yfir hvorttveggja, annaðhvort að lækka hvorttveggja eða láta hvorttveggja haldast. Ég skil ekki þær upplýsingar, sem n. hefir fengið, um að ómögulegt sé að reka sandgræðsluna nema að styrkurinn sé hækkaður. Þá má eins segja, að ómögulegt sé að reka Búnaðarfélag Íslands nema styrkurinn haldist. (MG: En það lækkar svo mikið). Já, en það er þegar búið að gera ráðstafanir til þess, að allir liðirnir verði ekki einu sinni notaðir. Hér er um nauðsynlega framkvæmd að ræða og maðurinn, Gunnlaugur Kristmundsson, sem hefir hana með höndum, er framúrskarandi duglegur og dyggur maður. En vitanlega er hægt að draga úr ýmsum tilkostnaði þar sem annarsstaðar, t. d. girðingum og öðru slíku. Það er vitanlega ekkert því til fyrirstöðu að gera minni girðingar, þótt ánægjulegt væri að geta veitt sér það að hækka við sandgræðsluna frá því, sem er í frv., en ég verð að álíta, að það, að taka til þess 10 þús. kr. frá Búnaðarfel. Íslands sé í sjálfu sér ekki rétt.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja þessar umr. Vildi aðeins láta það koma í ljós, að einungis út frá þessu sjónarmiði, að lækka allan mögulegan tilkostnað, verður ekki hjá því komizt að samþykkja þessa miklu niðurfellingu til framkvæmda í 16. gr. Og skoða ég þessar lækkanir sem raðstafanir til bráðabirgða, sem leiðréttist undir eins og fyrst er unnt.