09.03.1932
Efri deild: 24. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

9. mál, brúargerðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Samgmn. hefir á fundi í dag yfirvegað þessar tvær brtt., sem fyrir liggja, og fyrir n. hönd hefi ég ekkert um þær að segja nema það, að nm. hafa um þær óbundið atkv. Þó vil ég geta þess til upplýsinga um brtt. þskj. 93, sem mér skilst að komi nú til atkv., að brúarstæði á Hvítá þarna er ekki rannsakað að sögn vegamálastjóra. Í öðru lagi vil ég henda á, að þessi vegur er ekki tekinn í þjóðvegatölu, svo það er nokkuð hæpið að setja brúna í þann kafla brúarlaganna.

Um brtt. á þskj. 111 hefi ég reyndar ekkert að segja. Hún felur það í sér, að stj. verður um brúagerðir eingöngu bundin við fjárlög. Í brúarlögunum frá 1919 er sama ákvæði og í frv. Og mér skilst, að það geti komið fyrir, að full þörf verði á að breyta frá fjárl., t. d. ef brú á fjölförnum vegi skemmist eða eyðileggst svo, að bráðra endurbóta þurfi, en öllu því fé, sem veitt er til brúagerða, er ráðstafað í fjárlögum.