19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

9. mál, brúargerðir

Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það verður sjálfsagt hægt að halda umr. um þetta mál áfram hér í d. í nokkra daga. Efalaust hafi allir hv. þdm. sömu söguna að segja úr sínum héruðum, að mikil nauðsyn sé á brúm. Aðalefni þessa frv. er einmitt þetta, að létta undir með héruðunum til þess að fá þessar brýr byggðar með miklu fjárframlagi úr ríkissjóði. Hv. 1. þm. Árn. viðurkenndi, að það væri ekkert sérstakt keppikefli að fá upptalningu á 100–200 brúm í Ill. kafla 2. gr., því að það er vitanlegt, að ekki verður ráðizt í nokkra framkvæmd á öllu því, sem þar stendur, eins og nú standa fjársakir. Og ég hygg óhætt að fullyrða, að ef gætt yrði svona hóflegs samræmis í byggingu nýrra brúa, þá verði aldrei á næstu 4–5 áratugum byggðar tvær brýr á Hvítá með jafnskömmu millibili og yrði milli brúnna hjá Iðu og Kiðjabergi. Af þessum ástæðum er sýnilegt, að hv. þm. getur ekki verið neitt kappsmál að fá þessar brýr taldar upp, nema til augnagamans fyrir sig og héraðsbúa, því að ég hygg, að þegar ráðizt verður verulega til framkvæmda í þessu efni, þá verði héruðin undir öllum kringumstæðum að taka þann bagga, sem þeim er ætlað að bera, 1/4 af kostnaðinum. En sé veruleg þörf fyrir brýrnar, er héruðunum í langflestum tilfellum kleift að leggja fram 1/4 kostnaðar. Ég undanskil hér samt Rangarvallasýslu, sem á ennþá fleiri vötn óbrúuð en t. d. Árnessýsla. Af þeim orsökum væri eðlilegra, að tekið væri upp í frv. eitthvað af hinum fyrirhuguðu brúm austan þjóðvegar í Rangárvallasýslu heldur en að bæta við í Árnessýslu. Það getur engan veginn réttlætt þessar brýr, að mikill ferðamannastraumur sé á þessu svæði. Eins og allir vita, er mest um ferðamenn um hásumarið, og þá er áhættulaust að fara yfir öll þessi vatnsföll; og þótt nota þyrfti ferju, þá er þar enginn tálmi fyrir menn, sem eru á skemmtiferðum, svo að ég myndi setja slíkar brýr aftur fyrir þær, sem nauðsynlegar eru innanhéraðssamgöngum, t. d. vöruflutningum o. þ. h. Ekki hygg ég, að ferðamannastraumur muni aukast mikið yfir fjallvegina Kjalveg og Stórasand, þegar fengið er sæmilegt bílvegasamband í sveitum landsins milli allra héraða Norður-, Suður- og Austurlands. Það er því ekkert nauðsynjamál fyrir viðkomandi héruð, hvort brýrnar standa í brúalögum eða ekki. Ég tel sjálfsagt, að þær brýr, sem héruðin leggja fram fé til að byggja, verði látnar ganga fyrir, því að það sýnir bezt nauðsynina fyrir brýrnar, ef héruðin vilja eitthvað á sig leggja til framkvæmdanna. Hinar brýrnar, sem ekki er lagt fé til frá héruðunum, eiga vissulega að koma á eftir. Ég undanskil þó Jökulsá á Fjöllum.

Það mun aðeins verða til þess að tefja framkvæmdir við brúarbyggingar að setja óhæfilega mikið inn í III. kafla 2. gr., því að sýnilegt er, að minnstu af því verður komið í framkvæmd á næstu árum. Þá bíða menn í von um, að ríkissjóður taki á sig allan baggann, en sú von mun reynast löng í biðinni, og get ég hugsað mér að fá fleiri af þessum brúm undir IV. kafla, þar sem ákveðið er, að ríkissjóður leggi fram 3/4 af kostnaði við byggingu brúnna.