23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

9. mál, brúargerðir

Sveinn Ólafsson:

Ég vil geta þess út af brtt. á þskj. 479, að þegar þetta mál var afgr. frá n., varð það að samkomulagi, að einstakir nm. fellu frá brtt. sínum, og voru þó sumar þeirra alls ekki smávægilegar. Þetta samkomulag í n. náðist einmitt vegna þess, að í 4. lið 1. gr. er gert ráð fyrir, að þau vötn, sem ekki eru talin í frv. þessu, geti tiltölulega auðveldlega komizt að samhliða þeim, sem nú eru talin, ef héruðin vilja eitthvað til vinna. Ég held, að hv. þm. Dal. hefði átt að láta sér nægja þessa huggun eins og við hinir, sem höfum dregið til baka till. um nýjar brýr, sem brýn nauðsyn er þó a, að komist inn í brúarlögin og byggðar verði fljótlega. Hv. þm. Dal. lét í ljós, að hann mundi ekki taka brtt. sínar aftur, eins og hv. frsm. n. gerði að sínu leyti og aðrir nm. hafa gert. Ég vonast enn til þess, að hann geri þetta, þótt ekki væri af öðrum ástæðum en þeim, að fylgja fordæmi n. í þessu máli. En vilji hann ekki falla frá þeim, mun ég greiða atkv. gegn þeim, því að ég sé enga ástæðu til þess að gera þessum smám hærra undir höfði en öllum þeim fjölda illfærra vatnsfalla, sem bíða óbrúuð víðsvegar um land.