18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég nenni nú varla að deila um þetta atr. við hv. þm., en hann ræður því alveg, hvort hann nefnir það svo, að þeir flokkar, sem taka upp stefnuskrár gamalla flokka, gleypi hina. En það, sem jafnaðarmannaflokkarnir lifa á er hin „liberala“ stefna. Hitt er satt, að svo virðist sem saklaus almenningur hafi um skeið lagt trúnað á orð þeirra jafnaðarmanna, sem komu til þeirra undir yfirskyni fagurra loforða, sem síðan hafa verið margsvikin, og meir og meir færzt í það horf, að jafnaðarmenn vinna að stefnu, sem í rauninni er ekkert annað en hin „liberala pólitík“, að undanskilinni þessari skipulagsfirru jafnaðarmanna, sem þeir raunar hafa hvarvetna yfirgefið, þegar þeir hafa verið búnir að fá aðstöðu til að koma henni á. Þar sem foringjar jafnaðarmanna eru sæmilega menntaðir menn, yfirgefa þeir þessa firru, þegar ábyrgðin á að leggjast á þeirra eigin herðar. Þetta er einungis handhægt verkfæri til þess að vinna lýðhylli. En ég álít tilgangslítið að þrátta um þetta atr., en þeim barnaskap hv. 2. þm. Eyf., að mig bresti þekkingu á þessum málum, vísa ég bara heim til föðurhúsanna. Slíkt orðalag sem hann við hafði, er vel fallið til skemmtunar, en fer ekki sérstaklega vel í munni þessa hv. þm. Það, sem hv. þm. átti við með því, að ég hefði sýnt barnalega vanþekkingu, var, að ég hefði haldið því fram, að framsóknarmenn hefðu átt frumkvæðið að þessu einkasöluskipulagi. Ég held fast við þetta, og barnaskapurinn er hjá hv. 2. þm. Eyf., en ekki mér. Vil ég benda hv. þm. á lögin, sem sett voru 1928, og framsóknarmenn áttu frumkvæðið að. Í frv. frá 1926 er ekkert slíkt skipulag. Það voru framsóknarmenn, sem 1928 komu þessu skipulagi á, gegn vilja og atkvæðum andstæðinganna. Það er því rétt, að þeir áttu frumkvæði þessa skipulags. Það er dálítið gaman að því, þegar þessir syrgjendur, hv. framsóknarmenn, harma örlög einkasölunnar, en hugga sig þó við það, að þeir geti kennt stj. síldareinkasölunnar síðastl. sumar um allar ófarirnar. Það voru þessi óskaplegu söltunarleyfi, sem allri ógæfunni ullu. Þetta mætti e. t. v. til sanns vegar færa, hefði Síldareinkasalan nokkurntíma greitt nokkuð út á þessi söltunarleyfi. Hún greiddi 2 kr. til framleiðenda fyrir síldartunnuna. Þótt leyfin hefðu verið margfalt minni, var útborgunin hvergi nærri hæfileg. Þetta atr. ætti því ekki að valda ógæfunni. Nei, það er annað og eldra. Þrátt fyrir það, að ekki voru greiddar nema 2 kr. fyrir tunnuna, er tapið talið 1,5 millj. kr. Ekki hefir sú upphæð farið í greiðslu fyrir síld. Þetta er því einungis blekking. Það er skipulagið sjálft, sem hefir reynzt ófært, og er frá upphafi dauðadæmt, eins og nú er fram komið. Skraf hv. 2. þm. Eyf. er árangurslaust. Það þýðir hvorki fyrir hann né hæstv. dómsmrh., að halda því fram, að sjálfstæðismenn í stj. Síldareinkasölunnar hafi haft nokkur völd. Það er kunnugt, að þeir höfðu þar ekkert að segja fyrr en þá í sumar, ef þeir hafa tekið þátt í því að samþ. þessi söltunarleyfi, sem mér er ókunnugt um, hvort þeir hafa gert. En til sönnunar því, í hve miklum hávegum sjálfstæðismenn í stj. voru hafðir, má geta þess, að einum þeirra var boðin formannsstaðan í stj. einkasölunnar á sumri sem leið, en einungis af því, að framsóknarmenn sáu, hvert stefndi, og vildu gjarnan komast undan ábyrgðinni. Sjálfstæðismaðurinn afþakkaði boðið. Hann vildi ekki taka við rústunum og tókst því ekki að koma ábyrgðinni formlega á hendur þeirra. En þá fyrst er þeim boðið upp á völd og áhrif í einkasölunni, þegar búið er að stýra öllu í strand. Þetta er sannleikurinn í þessu máli.

Það er þýðingarlaust atriði, hvort Boðvar Bjarkan var fjarverandi eða ekki þegar leyfin voru samþ. mér er ekki kunnugt um, á hvaða tíma það var, en held þó, að það hafi verið eftir að hann kom heim, að leyfin voru aukin. Og það er sú aukning, sem þýðingu hefir í þessu sambandi. Í upphafi var ekkert ákveðið um það, hve mikið ætti að salta, heldur var það aukið smátt og smátt, er leið fram á sumarið. Þótt Böðvar Bjarkan hafi þá verið fjarverandi, hefir væntanlega einhver verið í hans stað. Ef skipulagið er, segir hv. 2. landsk., þá er hægt að gera þetta og þetta. En hvað sýnir reynslan? Þrátt fyrir skipulagið eru söltunarleyfin ekki takmörkuð. Það er auðvelt að setja fram hina og þessa möguleika í sambandi við skipulag og gefa fögur loforð, loforð, sem aldrei verða efnd. Hið eina, sem ræður bót á þessu, er framtak einstaklingsins. þegar ábyrgðin á atvinnurekstrinum færist yfir á einstaklingana, þegar þeir vita fyrirfram, að þeir sjálfir eiga að bera tap eða gróða, þá mun öllu reiða betur af en eins og nú er, þegar ábyrgðin á skipulögðu fyrirtæki hvílir á stj., sem í rauninni er þó ábyrgðarlaus, þegar á að fara að stunda síldveiðar undir frjálsu fyrirkomulagi, munu einstakir atvinnurekendur reikna út fyrirfram, hvort þeir muni hafa ávinning af því að gera út. Og þeir munu afla sér tryggingar fyrir því, að andvirði síldarinnar fáist greitt. Þannig gekk það áður, og þetta hefir nú verið tekið upp aftur. Á þennan hátt takmarkast framleiðslan, því að menn vita, að ekki þýðir að framleiða út í bláinn. Og þeir einir, sem hafa nægilegt fjármagn eða eiga vísa sölu á síldinni, geta gert út. Einkasöluskipulagið hefir verið reynt. Gyllingarnar eru farnar af því og það fer alveg gyllingalaust í gröfina. Það þýðir ekki að vera að reyna að gylla það upp á ný í því skyni að fá okkur til að gleypa við því.