18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónason) [óyfirl.]:

ég gleymdi að leiðrétta eina villu hjá hv. 1. þm. Reykv., þegar hann aftur, eftir marga ára dvöl og hvíld, hóf að kasta hnutum að Landsverzluninni. Hv. þm. má vera ánægður með að hafa komizt á þing fyrir að segja meiri fjarstæður og hugsanavillur um þetta skipulag en nokkur annar Íslendingur hefir gert. Og að því leyti, að hann langaði inn í þingið, þá var það gott fyrir hann. Hitt er öllu verra fyrir hv. þm., að það var töluvert annar blær á Landsverzluninni, sem Magnús Kristjánsson stýrði, bæði með innkaup á erlendum vorum, og svo olíuverzluninni, meðan hún stóð, heldur en síldarsölunni, þegar núv. hv. þm. G.-K. (ÓTh) og Björn Líndal komu til þingsins 1926 og viðurkenndu, að þeir yrðu að biðja um einkasölu á síld, af því að stefna sú, sem hv. 1. þm. Reykv. hafði öruggast haldið fram í blaði sínu, væri búin að reyna sig, og hefði reynzt óhæf. Hv.1. þm. Reykv. er það ljóst, að þá komu þessir merku fulltrúar útvegsins eins og sigraðir menn. þeir komu á sama hátt sigraðir eins og og ef S. Í. S. kæmi til kaupmannanna í landinu og segði: Við höfum reynt, að ekki er hægt að notast við kaupfélagsstefnuna, við biðjum kaupmennina því að taka verzlunina í sínar hendur eins og áður. Þegar hv. 1. þm. Reykv. vill því láta í ljós gremju sína yfir því, að reynt hefir verið lögþvingað skipulag, þá bitnar það allt á hans eigin stefnu, á hans eigin flokki, þar sem tveir af leiðtogum hans flokks komu þessu skipulagi á, af því, að allt var komið í strand hjá þeim sjálfum. Og það mun ekki líða langur tími unz hv. 2. landsk. kemur eins og flokksmenn hans 1926 og verður að biðja aðra þm. að bjarga sér út frá þeirri stefnu, sem hann taldi sig geta fylgt, en hvorki hefir reynzt holl né góð. Hv. 1. þm. Reykv. hefir viljað halda því fram, að við framsóknarmenn berum ábyrgð á, að þetta gekk fram og að ekki gekk betur með þessa tilraun þegar til kom. Mjög fáir okkar kjósenda, og engir okkar þm. höfðu haft afskipti af síldveiðum eða síldarsölu, þegar hv. þm. G.-K. og Björn Líndal fengu þessa sorglegu reynslu, sem leiddi til laganna frá 1926. Okkur framsóknarmönnum verður því ekki um það kennt. Eftir að komnar voru einróma yfirlýsingar bæði frá sócíalistum, sem lengi höfðu haldið fram slíku skipulagi, og útvegsmönnum, var orðin talsvert önnur aðstaða miðflokksins, hvort hann ætti ekki að hjálpa til að koma þessu skipulagi a. Við vildum á þ. 1926 hjálpa til að koma þessu skipulagi á, þar sem hið gamla kerfi var hrunið í rústir, en við tökum það fram þá, að skipulagið myndi ekki gefast að öllu leyti vel. Íhaldið átti kost á að reyna sitt skipulag vorið 1927. En þeir gerðu það ekki. Þeir voru orðnir hræddir við sínar eigin tilraunir, og því lágu fyrir sannanir um vanmátt hinnar frjálsu samkeppni í síldarmálum. Með reynslu þeirri, sem þessir menn fengu við framkvæmd 1. frá 1926, og reynslunni frá vorinu 1927 voru þeir búnir að koma auga á, að hér þurfti skipulags við, en þeir gátu ekki fundið það. Þingið 1928 tók þetta upp eins og arf frá íhaldsmönnum. Það gat ekki annað en breytt skipulagi, sem upphafsmennirnir sjálfir höfðu dauðadæmt. Það gat ekki annað en viðurkennt, að úr því að bæði sjómenn og útgerðarmenn höfðu bannfært stefnu hinnar frjálsu samkeppni, væri ástæða til að ath. málið alvarlega. Í stað þess að taka á okkur ábyrgð eins og við Landsverzlunina forðum, að við skyldum trúa þessum aðiljum, þá getur verið, að það sé rangt, og ég vil trúa hv. 1. þm. Reykv. fyrir því, að ég býst við, að ómögulegt verði að notast við nokkurn mann úr íhaldsflokknum til þess að standa fyrir svona framkvæmdum. Ég býst því við, að eftir undanfarinni reynslu fái þeir aftur að reka sig á í sumar, þótt það verði e. t. v. betra en var frá 1,91926. Bankarnir munu ekki trúa þeim fyrir miklu fé, en vesöldin og leppmennskan mun verða hin sama, og enginn efast um, að þýlyndið gagnvart útlendingum verði eigi hið sama og áður. Ég vil minna hv. 1. þm. Reykv. á það 1919–26, sem hann sjálfsagt getur gert án þess að misnota sitt embætti, mun hann skilja hvers vegna hv. þm. G.-K. og Björn Líndal neyddust til þess að yfirgefa sína stefnu, samkeppnina. Hann mun sjá, að milljónir og aftur milljónir hafa runnið úr bönkum landsins út í sandinn. Ég hygg, að hv. 1. þm. Reykv. hafi komið fyrst á þing árið 1919. E. t. v. man hann eftir því, að einn fylgismaður hans, kaupmaður hér í bænum, var búinn að draga saman um 1/2 millj. kr., en tapaði svo öllu, af því að hann hlýddi ekki ráðum hins vitra manns í þeim efnum, Óskars Halldórssonar, og seldi síldina of seint. Hv. þm. getur litið inn í bankann, þar sem nokkur hluti þessarar skuldar stendur enn. Hv. þm. getur ímyndað sér, hverjar afleiðingar þetta fjársukk hefir fyrir manninn sjálfan, fyrir bankann og fyrir landið. Ég get hugsað mér, að ef hv. þm. vildi verja einhverju af sínum dýrmæta tíma í það að leggja saman milljónirnar, sem vinir hans og flokksmenn eru búnir að sóa af landsins fé, samtímis því, sem leppmennska og hverskonar ósjálfstæði þróaðist, þá gæfi það honum e. t. v. einhverja auðmýkt gagnvart þeirri strandlífsskoðun, sem fleytti honum inn í þingið 1919, en skapaði bönkunum nokkurra millj. kr. tap.