29.03.1932
Efri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Jónsson):

Hv. frsm. minni hl. hélt því fram, að sama ástæða væri til þess að samþ. þetta frv. nú og áður. En samt hefir eitt stórt atriði komið fram síðan 1930, og það er sú voða kreppa, sem við eigum nú við að búa. En skv. brtt. hv. frsm. get ég ekki annað séð en að einnig hann gjóti hornauga til kreppunnar, þar sem hann vill lengja tímann, sem áætlaður er til framkvæmda, og með þeirri tilslökun við fjárveitingarvaldið að gefa því kost á að skipta fjárveitingum sínum niður á fleiri ár, hefir hann eiginlega gengizt inn á skoðanir okkar, sem berum fram rökst. dagskrána, og rok okkar fyrir því, að ekki muni gerlegt að samþ. frv. nú.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að hér hefði verið samkomulag um þetta mál áður, og að meðferð n. hefði því orðið honum vonbrigði. Í fyrra hreyfði ég þó andmælum við því að binda endilega framkvæmdirnar við þennan tíma, einmitt af því að ég var farinn að eygja kreppuna. Og ég skil ekki, að hæstv. ráðh. geti búizt við, að ég hafi nú aðra skoðun á þessu, þegar kreppan er komin í algleyming. — Það, sem hæstv. ráðh. talaði um stúdentagarðinn, var allt saman gott og blessað. Ég sé ekki, að Alþ. geti gert annað viðvíkjandi honum en að sjá til þess, að ákveðið skuli sem fyrst, hvar eigi að byggja háskólann. Og það þarf að tryggja honum stað með samningum við Reykjavíkurbæ, sem allra fyrst, helzt fyrir næsta Alþ. Það er vel sennilegt, að byrjað verði á byggingu stúdentagarðs áður en byrjað verður á háskólanum sjálfum, því að nú þegar mun hafa safnazt mikið fé til þeirrar byggingar. En ég tel það mikið vafamal, hvort rétt sé, þegar ekki er meira til af erlendum gjaldeyri en nú, að ráðstafa því litla, sem við höfum, í stórbyggingar, sem vel mega bíða betri tíma. Hæstv. dómsmrh. hélt því fram, að með till. okkar væri málinu skotið á frest og komið í veg fyrir nauðsynlegan undirbúning. En þetta er ekki rétt. Einmitt í rökst. dagskránni, sem við hv. 6. landsk. berum fram, er tekið fram, að fenginn skuli staður fyrir þessar byggingar hið allra fyrsta fyrir mesta þing. En í frv. er ekki vikið að því með einu orði, að þegar skuli hefja undirbúning í þessu máli. Það er látið þar alveg óumtalað. Og ég get ekki annað séð en að það sé eins innan handar fyrir stj. að láta undirbúa þetta mál, þótt sú afgreiðsla á þessu frv., sem við förum fram á, nái að ganga fram. Ég get ekki séð, að í till. okkar felist nokkur ókurteisi gagnvart Reykjavíkurbæ, þótt bornar séu fram spurningar þess efnis, hvað bærinn muni vilja af mörkum leggja til þess að háskólinn komist sem fyrst upp. Ég lít svo á, að það séu ekki lítil hlunnindi fyrir Rvík að hafa allar helztu menntastofnanir landsins hjá sér, og nauðsynin á því að fá stað ákveðinn er mjög brýn, því að ekki er ómögulegt að á næstunni verði byrjað á stúdentagarðinum, þar sem stúdentar láta af því, að talsvert mikið fé hafi þegar safnazt til hans. En það er að byrja á rétta endanum, að fá fyrst landið tryggt, og síðan fara að bollaleggja, hvenær byrja skuli að reisa.