26.04.1932
Neðri deild: 60. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1282 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Magnús Guðmundsson:

ég þarf aðeins að gera örstutta aths. Hv. þm. V.-Húnv. sagði svo margt til stuðnings mínu máli.

Mig undraði það, sem hæstv. dómsmrh. sagði viðvíkjandi reikningum vinnuhælisins fyrir austan. Hann sagði, að kostnaður af hælinu væri í LR. talinn meiri en hann í raun og veru væri, vegna vinnu fanganna. (Dómsmrh.: Hv. þm. skilur það svo). Ég tilfæri það sem hæstv. ráðh. sagði, en þá upphæð, sem ég nefndi áður, að farið hefði til hælisins, hefi ég tekið eftir LR., sem ég sjálfur hefi endurskoðað. Ef það væri rétt, sem hann sagði, þá er hér um beina fölsun að ræða.

Mér skildist á hæstv. ráðh., að hann héldi, að ég álíti það mikið örlæti við háskólann, sem fram kemur í 1. gr. frv., en svo er ekki. Ég er algerlega samþ. hv. þm. V.-Húnv. um það, að þessi gr. er alveg þýðingarlaus. hér er því um ekkert örlæti að ræða. En örlæti við háskólann kemur t. d. fram í dæminu um stólana.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að nemendur yrðu að sitja úti í gluggakistunum. Lausir stólar ættu þó ekki að vera dýrir.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að ekki væri hægt að semja við bæinn um land, nema því aðeins, að lofað væri að byggja. Ætlast hann til þess eftir frv., að stj. lofi að byggja árin 1934–1940? Frv. gefur enga heimild til slíks. Það er ekki heldur rétt, að það þurfi að lofa að byggja á lóðum utan við bæinn innan ákveðins tíma, það gildir aðeins um götur, sem farið er að leggja. Hefi ég talað um þetta við einn bæjarfulltrúann, og vissi hann ekki til þess, að slík skilyrði væru sett.

Eins og við hv. þm. V.-Húnv. höfum tekið fram, liggur í frv. ekkert loforð fyrir, heldur segir það, að byggja skuli, ef síðari þing vilja svo vera láta. Það er alltaf hægt að segja. Ég get líka lofað að láta byggja hóskóla, ef hv. 4. þm. Reykv. og hæstv. dómsmrh. útvega peninga.