12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1302 í B-deild Alþingistíðinda. (917)

21. mál, geðveikrahæli

Magnús Guðmundsson:

Ég get ekki tekið undir með hæstv. dómsmrh., að hér sé um lélegustu hreppapólitík að ræða.

Öllum öðrum sjúkrahúsum en holdsveikraspítalanum og Kleppi fá hreppsfélögin greitt allt, sem er umfram 400 kr. kostnað, fyrir 4 fyrstu sjúklinga sína. Mér finnst því satt að segja ekki nema eðlilegt, að um leið og daggjöldin fyrir sjúklingana eru sett upp, þá sé fátækralöggjöfinni jafnframt breytt á þann veg, að geðveikisjúklingar heyri undir sömu lög og sjúklingar á öðrum sjúkrahúsum. Ég vil því spyrja hæstv. ráðh., hvernig hann muni taka undir slíka lagabreyt.

Það, sem vakir fyrir flm. till. þeirrar, sem hér er um á ræða, er vitanlega ekkert annað en það, að reyna að koma í veg fyrir, að sveitarfélögunum verði íþyngt um of með greiðslu fyrir sjúklinga sína á þessum tveim sjúkrahúsum.