27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (949)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Pétur Ottesen:

Þegar þetta mál var til 2. umr. á föstudaginn var, þá var það fyrir andmæli, sem ég hreyfði gegn brtt., sem fyrir lágu frá sjútvn., að málið var tekið út af dagskrá, og jafnframt fyrir tilmæli hæstv. atvmrh., sem fram komu á fundinum. Eins og kunnugt er, hafði n. lagt til að fella niður þennan styrk, sem greiddur er nú af ríkissjóði, upp í þann kostnað, sem leiðir af birtingu þessara skeyta, og til þess að athuga það nánar, var málið tekið út af dagskrá, svo að n. gæfist kostur á að tala við atvmrh. og forseta Fiskifélags Íslands, sem hefir búið þetta mál undir þingið fyrir stjórnina. Atvmrh. og hv. frsm. sjútvn. hafa átt fund um þetta við forseta Fiskifélagsins, og ég held, á það hafi talast svo til með þeim, að frsm. sjútvn. beitti sér fyrir því, að n. felli frá þessari till. Nú var málið svo tekið aftur fyrir á mánudaginn, en af óviðráðanlegum ástæðum gat ég ekki mætt á fundi þann dag. Ég sé, að málið hefir þá verið tekið fyrir og gengið atkv. um þessa till. n., sem ágreiningurinn reis út af, og hefir hún verið samþ. Ef ég hefði getað mætt á fundinum, hefði ég vitanlega beitt mér gegn till., en eins og nú er komið er ekki hægt að koma að till. um að taka þetta ákvæði út úr frv., og verð ég því að setja von mína til Ed., að hún kippi málinu aftur í fyrra horf og að það svo fái að ganga í gegn á þeim grundvelli, því að eins og ég hefi tekið áður fram, þá álít ég ósanngjarnt að svipta sjómenn þeim stuðningi, sem þeir hafa af þessum ákvæðum, við það að tileinka sér vel þessi veðurskeyti, sem eru heim ákaflega mikils virði.