24.02.1932
Neðri deild: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

41. mál, ríkisábyrgð á innstæðufé Útvegsbanka Íslands

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég mun ekki viðhafa neinar orðahnippingar um forsögu þessa máls. Ég vil þó aðeins geta þess, út af því, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að aðalatburðurinn í sögu þessa bankamáls skeði á þingi 1921, þegar ábyrgð var tekin á láni til Íslandsbanka og vald tekið á stjórn bankans. Það, sem síðar hefir gerzt í málefnum þessara stofnana, er afleiðing þessa atburðar.

Ég get tekið undir með hv. 3. þm. Reykv., þar sem hann sagði, að eðlilegast væri, að seðlaútgafan sé á einni hendi. Að því ber að vinna. En það verður að gerast með þeim hætti, að Útvegsbankinn missi ekki þess hagnaðar, sem hann hefir nú af seðlum sínum. Eftir þeim hlutföllum, sem eru milli tekna hans og gjalda, er sýnilegt, að hann má ekki vera án þess hagnaðar, sem seðlarnir veita honum. Ég tel mér skylt að geta þessa, svo það komi engum á óvart síðar.

Það er vitanlega rétt, að því meira sem ein stofnun er styrkt, því minna er hægt að styrkja aðra. En í raun og veru er ekki hægt að tala um, að stofnanirnar njóti þeirrar aðstoðar, heldur eru það framleiðendurnir og hið vinnandi fólk, sem njóta þess, að bankarnir eru styrktir, því að þeir deila því svo aftur út frá sér. Kemur þá í sama stað niður, og er öll togstreita óþörf milli stofnana eins og Landsbankans og Útvegsbankans.