18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

23. mál, breyt. á vegalögum

Ingvar Pálmason:

Ég veit það ofurvel, að okkur hv. 2. þm. N.-M. ber ekki mikið á milli um þessar vegamálatill., er snerta Austurland, enda er það skiljanlegt, þar sem hann er eini maðurinn í þessari hv. þd., auk mín, sem er kunnugur þar austur frá, þó að hann þekki ekki nægilega til um afstöðu sumra af þeim vegum, sem ég flyt brtt. um. En það, sem okkur greinir á um, er þetta: að hann segir, að á meðan ekki sé búið að leggja nema 1/3 hluta af þjóðvegum í Múlasýslum, sem nú eru lögákveðnir, þá sé ekki ástæða til að bæta við þá eða lengja. En hér ber mikið á milli. Ég álít, að það sé fyrsta sporið í áttina að koma vegunum inn í þjóðvegakerfið; þá fyrst má það koma til álita, hvaða vegir séu nauðsynlegastir og eigi að sitja fyrir, þegar til framkvæmda kemur. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að vegurinn á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar verður lagður innan fárra ára. Og verði valin lengri leiðin (þ. e. ytri leiðin), ber á það að líta, að vegarbót þeirri, sem gerð er heima í héraði, verði hagað þannig, að hún sé í fullu samræmi við það, sem þjóðvegurinn verður lagður síðar og falli inn í hann. En þá kemur fyrst og fremst til greina, hvar brúin á að liggja yfir Norðfjarðará. Á því er nokkur vafi, en ef til vill verður hún ekki byggð fyrr en búið er að ákveða, hvar þjóðvegurinn skuli vera. Hv. 2. þm. N.-M. taldi, að þetta vegarstæði væri of lítið rannsakað, og það er að vísu rétt. Það hefir reynzt erfitt að fá slíka rannsókn gerða af mönnum, sem treysta mætti til þess. En árið 1931 tókst okkur þm. S.-M. að fá vegamálastjóra til að lofa því að senda mann austur til að mæla fyrir veginum, og það var gert um sumarið. En svo hefir sáralítið verið unnið úr þeim mælingum, annað en þetta hrafl, sem kemur fram í nál. samgmn., eða fskj. vegamálastjóra við það. Og það tel ég sök þeirra, sem hafa stjórn vegamálanna með höndum, því mér er óhætt að segja, að við höfum gengið eftir þessum mælingum. En þó að vegamálastjóri kunni að vera því mótfallinn, að þessir vegir verði teknir upp, þá legg ég áherzlu á það, fyrst og fremst, að vegirnir milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og Reyðarfjarðar og Búða verði teknir inn í þjóðvegalögin, og hinir líka, því að þá fyrst kemur það til greina, að farið verði að athuga þá og undirbúa byggingu þeirra. — Ég er sannfærður um, að þegar búið er að ákveða þjóðveg á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, þá líða ekki mörg ár þangað til farið verður að leggja hann.