24.04.1933
Efri deild: 54. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

23. mál, breyt. á vegalögum

Frsm. (Einar Árnason):

Eins og hv. þdm. muna, lagði samgmn. til við 2. umr., að frv. væri látið ganga fram að mestu leyti óbreytt, og þess vegna tóku nm. aftur þær till., sem þeir báru þá fram. En hv. d. vildi ekki fallast á þetta og samþ. þær brtt., sem lágu fyrir við 2. umr., að ýmsir vegakaflar skyldu teknir í þjóðvegatölu. Út af þessu vil ég taka það fram, að n. mun enga afstöðu taka til þeirra brtt., sem nú liggja fyrir, en telur sig hafa óbundin atkv. um þær.

Ég flutti brtt. við 2. umr., en tók hana aftur þar til séð yrði, hvort nokkrar breyt. yrðu gerðar á frv. Þar sem brtt. hafa nú verið samþ., þá sé ég enga ástæðu til annars en að halda fram brtt. minni, sem er þess efnis, að tekinn verði í þjóðvegatölu vegur frá Hofsósi til Siglufjarðar, sem heiti þá Siglufjarðarvegur. Ég vil vænta þess eftir þeim undirtektum, sem aðrar till. fengu hér í d. við 2. umr., að henni verði vel tekið. Um Siglufjörð er það að segja, að þangað liggur enginn sæmilegur vegur. Þarna er að vísu erfitt um vegalagningar, en eigi að síður er Siglufjarðarbæ og sveitunum þar í kring mikil þörf á akvegasambandi. Fyrst og fremst er það Siglufirði til mikils gagns, því að þá er hægt að koma þangað landbúnaðarvörum úr nærsveitunum á ódýrari hátt, svo að kaupstaðarbúar geta þá fengið þær með lægra verði. Einnig yrði það þessum sveitum til mikils gagns að geta þannig komið vörum sínum á markað, því að þar er hafnleysisströnd og samgöngur erfiðar á sjó. Þessi vegur liggur að miklu leyti um Skagafjarðarsýslu, frá Hofsósi um Sléttuhlíð og Fljót og þaðan til Siglufjarðar.

Ég tel svo ekki þörf á að fjölyrða frekar um þessa till. Ég þykist viss um, að hv. þdm. sjái, að það er engu minni þörf á að bæta samgöngur við Siglufjörð heldur en aðra staði á landinu.