10.05.1933
Neðri deild: 70. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

23. mál, breyt. á vegalögum

Ingólfur Bjarnarson:

Ég heyrði, að hæstv. atvmrh. fór með þær mótbárur gegn Kinnarveg, að kostnaðurinn, sem hann hefði í för með sér, væri svo mikill, og auk þess væri þá brúargerð yfir Skjálfandafljót. Ég kannaðist við það í fyrri ræðu minni, að þetta yrði alldýrt fyrir ríkissjóð og að ekki yrði hægt að vænta framkvæmda í bráð, en hinsvegar taldi ég sjálfsagt, að vegurinn væri settur inn í lögin sem viðurkennt framtíðarskipulag. En ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. var því samþykkur, að vegurinn kæmist inn við næstu endurskoðun laganna, og tel ég þá yfirlýsing mjög til bóta. Og þótt ég vænti þess, að hv. d. líti svo á við atkvgr., að réttara sé að gera breyt. þessa nú þegar, þá tel ég mikið unnið við, að hæstv. ráðh. hefir viðurkennt breytinguna réttmæta, þótt hann vilji láta hana bíða í bili. Hæstv. ráðh. sagði um Mývatnsveginn, að honum virtist ótryggara fyrir héraðsbúa, að hann væri gerður að þjóðvegi, af því að ríkið legði meira til viðhalds fjallvega, — ef ég hefi þá skilið hann rétt. En ég held, að ekki sé minni trygging fyrir viðhaldi þjóðvega en fjallvega, og sízt minna handbært fé til þeirra hluta. Það, sem hæstv. ráðh. hafði á móti Grenivíkurveginum, var á mjög veikum rökum byggt, að ég ekki taki dýpra í árinni. Vegur þessi hefir fullan rétt á sér sem þjóðvegur, þótt miðað sé við fjölda annara þjóðvega úti um land. Og í samanburði við ströndina vestan Eyjafjarðar hygg ég, að ekki muni svo miklu um mannfjölda að austanverðu, að gerandi sé upp á milli. Ég ætla ekki að eyða að þessu fleiri orðum, en vil aðeins benda á til athugunar út af því, sem hv. frsm. sagði, að Þingeyjarsýsla hefði fengið 21 km. af þjóðvegum með frv., að sá vegur, sem þar um ræðir, liggur austan við byggð í sýslunni, til N.-Þingeyjarsýslu og kemur því ekki sýslubúum að neinum notum, heldur langferðafólki. Og er því ekki hægt að meta það svo mjög sem viðbót fyrir sýsluna.